Einbreiðum brúm á Hringvegi (1) fækkar

Skipulega er verið að fækka einbreiðum brúm bæði á Hringvegi (1) og um landið allt. Árið 1990 voru einbreiðar brýr á Hringvegi hátt í 140 talsins. Þeim fækkaði hratt og voru orðnar um 60 í kringum 2006 og 42 árið 2011.

Síðan hægðist mjög á slíkum framkvæmdum og aðeins voru breikkaðar eða byggðar nýjar brýr í stað 6 einbreiðra brúa á átta árum. Árið 2019 voru byggðar sjö brýr í stað einbreiðra brúa á landinu öllu. Þetta voru brýr í Berufjarðarbotni, yfir Hófsá í Arnarfirði, yfir Mjólká í Arnarfirði, brú á Eldvatn og yfir Loftsstaðaá í Flóa, einnig brú yfir Breiðdalsá og stokkur fyrir Tjarnará á Vatnsnesi.

Í lok árs 2019 voru boðnar út fjórar brýr á Hringvegi; brú yfir Steinavötn í Suðursveit sem er 100 m löng, brú á Fellsá í Suðursveit sem er 47 metrar, brú á Kvíá í Öræfum sem er 32 m löng og brú á Brunná austan Kirkjubæjarklausturs sem er 24 m.

Framkvæmdir við þessar brýr hófust vorið 2020 og er þeim nú lokið eða við það að ljúka. Þar með hefur einbreiðum brúm á Hringvegi (1) fækkað í 32. Reyndar eru þær enn 33 talsins þar sem bráðabirgðabrú yfir Fellsá er enn uppistandandi og í notkun. Ístak sá um byggingu þeirra allra.