Eldur í nýjum Jeep Cherokee

Umferðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NHTSA, hefur tekið 2015 árgerðina af Jeep Cherokee til rannsóknar vegna ábendingar um meinta eldhættu í vélarrúmi bílanna. Rannsóknin nær til 50.450 bíla. Jeep Cherokee hefur verið mjög vinsæll bíll um langt árabil og nýjasta kynslóðin sem kom fyrst fram 2013, sem nú er til rannsóknar, hefur hlotið mjög góðar viðtökur. Frá þessari rannsókn er greint á fréttavef Reuters fréttaveitunnar.

Samkvæmt fréttinni er rannsóknin gangsett á grundvelli tveggja ábendinga. Önnur er frá manni í San Diego sem sagði að fáum sekúndum eftir að hann hafði lagt bílnum í stæði, hefði mikill eldur blossað upp í vélarrúmi bílsins og eldtungur stigið til himins. Enginn hefði þó brennst eða slasast.

Bíllinn sem um ræðir var glænýr. Hann hafði verið keyptur 2. janúar sl. og bruninn orðið tveimur dögum síðar þegar bílnum hafði verið ekið vel innan við 200 kílómetra að því er segir í tilkynningu eigandans. Hin kvörtunin er frá 5. janúar. Í henni segir eigandi annars nánast nýs bíls, að reykur hefði komið undan vélarhlífinni á tæplega 100 km hraða úti á vegi.

Eric Mayne talsmaður Fiat-Chrysler í Bandaríkjunum segir við Reuters að þeir viti af fyrra avikinu og að fullt samráð og samvinna verði við NHTSA í þessu máli. Rannsóknin nú sé forrannsókn og ekki enn hægt að segja hvort hún muni leiða til innköllunar á bílunum.