Fórnarlamba umferðarslysa minnst um allan heim

Í gær, sunnudaginn 15. nóvember var alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa. Stuttar athafnir voru haldnar um allan heim þar sem var minnst látinna með mínútu þögn, m.a. við upphaf keppni í Formúlunni í Brasilíu í gær, sunnudag. Dagurinn nefnist hinu alþjóðlega nafni WDR (World Day of Remembrance for Road Traffic Victims) og ber upp á þriðja sunnudag nóvembermánaðar ár hvert.

Athafnir til að minnast fórnarlamba umferðarslysa hafa verið haldnar á Íslandi frá því að átak SÞ; Áratugur aðgerða gegn umferðarslysum hófst fyrir nokkrum árum. Í fyrra fór hún fram við bráðamóttökuna í Fossvogi. Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson ávarpaði gesti og stýrði mínútu þögn kl. 11:00.  Ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins flutt ávarp frá innanríkisráðherra. Meðal viðstaddra voru aðstandendur látinna, fólk sem lifað hefur af alvarleg umferðarslys, bráðaliðar, hjúkrunarfólk og læknar. En í ár brá svo við að engin slík athöfn er haldin og engar skýringar gefnar á hvers vegna.

Athöfnin í móttökuskýli sjúkrabifreiða á Borgarspítalanum í Fossvogi í fyrra er minnisstæð. Það var lærdómsríkt að hitta að máli þá sem umferðarslysin hafa snert hvað harðast - nánustu aðstandendur látinna, þá sem lifað hafa af umferðarslys, bráðaliða, lögreglu, lækna og hjúkrunarfólk. Minnisstætt er samtal við hjón sem misstu son sinn í umferðarslysi. Hjónin mátu mikils þá virðingu sem minningu sonar þeirra og annarra látinna væri sýnd með þessari stuttu samkomu sem og vinnu þeirra sem fást við afleiðingar slysanna og þeirra sem vinna að slysavörnum.

Á myndinni fyrir neðan heiðra ökumenn Formúlunnar í Brasilíu fórnarlömb umferðarslysa með mínútu þögn, áður en keppnin hófst. Fremstir standa Jean Todt forseti FIA og Bernie Eccelstone Formúlustjóri.


http://fib.is/myndir/Litlukallarnir.jpg