Fyrsti rafknúni vörubíllinn frá Mercedes-Benz kominn til landsins

Sleggjan, sem er systurfélag Bílaumboðsins Öskju, hefur hafið sölu á rafmögnuðum eActros. Með eActros tekur Mercedes-Benz stórt stökk fram á sviði sjálfbærra flutninga og undirstrikar skuldbindingar sínar til umhverfisins.

Eiginleikar eActros eru lykilatriði í flutningum framtíðarinnar, enginn mengandi útblástur, hljóðlátur og skilvirkur. eActros er 100% rafdrifinn með öflugri rafdrifinni drifrás.

„Koma eActros undirstrikar að tími orkuskipta er runninn upp. Það verður spennandi að fylgjast með þróuninni, hvort sem það er í hefðbundnum fólksbílum, sendi- og atvinnubílum, eða stæðilegum vörubifreiðum. Mikilvægt er að allir rói í sömu átt; innflytjendur bíla, hagaðilar og síðast en ekki síst stjórnvöld. Íslensk stjórnvöld verða að standa við bakið á alvöru orkuskiptum og gera það kleift, og rekstrarlega mögulegt, fyrir fyrirtæki að fara í orkuskipti. Það hefur verið útgefið markmið stjórnvalda að það skuli nást. Fróðlegt verður að sjá hvað gerist í þeim efnum og hvort stjórnvöld standi bak við gefin loforð og fjármagni orkuskipti,” segir Eiríkur Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Sleggjunnar í tilkynningu.