GM eignast helming í ítalskri dísilvélaverksmiðju

http://www.fib.is/myndir/GM_logo_1.jpg

General Motors hefur eignast 50% hlut í ítölsku dísilvélaverksmiðjunni VM Motori. Hluturinn var áður í eigu DaimlerChrysler. GM hefur haft náið samstarf um nokkurt skeið við VM Motori m.a. um þróun nýrrar mjög fullkominnar dísilvélar í fólksbíla en vélafræðimenn VM Motori þykja með þeim allra bestu í hönnun, þróun og smíði fólksbíladísilvéla í heiminum.

Hér á fréttavefnum hefur áður verið sagt frá þessari nýju ofurdísilvél sem m.a. er fyrirhuguð sem aðalvélin í Cadillac CTS frá og með árinu 2009. Hún er 2,9 l, sex strokka, 250 ha. Vinnslan er 550 Newtonmetrar og það sem kannski er merkilegast hversu hreinn útblástur hennar er: Miðað við jafn öflugar vélar verður útblástur níturoxíðsambanda frá nýju vélinni allt að 90% minni í öllum venjulegum akstri. Vélin mun því að öllum líkindum ná því auðveldlega að vera undir nýjum mengunarmörkum sem taka eiga gildi í Evrópu að fullu árið 2012.

Galdurinn við þetta er í mjög grófum dráttum sá að samrásarinnsprautunin vinnur undir mjög háum þrýstingi (2000 bar) og úðunarspíssarnir við brunahólfin geta sent allt að átta olíugusur inn í brunahólfið í hverju einstöku aflslagi. Þrýstingsmælir sem innbyggður er í glóðarkertið í hverju brunahólfi mælir þrýstinginn og sendir boð tll stjórntölvu vélarinnar sem skammtar eldsneytismagnið eftir því hver þrýstingurinn er. Þetta allt þýðir að eldsneytisbruninn verður eins fullkominn og verða má, sama hver snúningshraði vélarinnar er eða hvert álagið er á hana. Og þegar bruninn er fullkominn verður mengunin í lágmarki.

Roger Johansson er framkvæmdastjóri GM Powertrain Europe. Hann hefur unnið með tæknimönnum VM Motori að nýju „súperdísilvélinni“ og með kaupunum nú munu þau bönd styrkjast enn frekar. VM Motori framleiddi í fyrra 76.000 vélar og í ár er áætlað að framleiða um 95.000 vélar.