Grænn vegur frá Osló og Stokkhólmi til Hamborgar

Með vorinu hefjast framkvæmdir við að gera aðalveginn milli Hamborgar til Stokkhólms annarsvegar og Osló hinsvegar að „grænum“ vegi. Það sem felst í þessu er að komið verður upp 70 hraðhleðslustöðvum fyrir rafbíla og tveimur áfyllingarstöðvum fyrir bíla sem ganga á LNG gasi (metangasi í fljótandi formi). Það er fjölþjóðlega evrópska orkufyrirtækið E.ON sem stendur að þessari framkvæmd sem áætlað er að taki þrjú ár.

Þegar verkinu lýkur verður mun auðveldara að ferðast frá Osló og Stokkhólmi um lengri veg og alla leið til stórborga Norður Þýskalands á rafbílum. LNG áfyllingarstöðvarnar tvær, sem báðar verða innan landamæra Svíþjóðar eru meir hugsaðar til að mæta eldsneytisþörf vöruflutningabíla.  Meirihluti hraðhleðslustöðvanna (50) verða sömuleiðis í Svíþjóð og verða þannig mikilvæg viðbót við þá innviði fyrir rafknúnar samgöngur sem fyrir eru þar. Í Noregi hefur mikil uppbygging innviða fyrir sjálfbært knúnar samgöngur átt sér stað undanfarin ár, enda er Noregur trúlega mesta rafbílaland heims og tvímælalaust sé miðað við fólksfjölda. Norðmenn hafa nefnilega keypt hátt í helming þeirra rafbíla sem framleiddir hafa verið síðustu árin.

Þetta innviðaverkefni fyrir vistvænar samgöngur er stutt af Evrópusambandinu. Einnig taka svæðisstjórnir og skipulagsyfirvöld meðfram E4 og E6 vegunum þátt í því og munu endanlega ákveða hvar nákvæmlega gas- og hraðhleðslustöðvarnar verða staðsettar.