Hvað er E10 eldsneyti og hvaða áhrif mun það hafa á þig?

Nú berast fréttir um það að neytendum standi ekki til boða annað 95 oktan bensín en svokallað E10 sem er með 10% etanólblöndu. Enginn aðdragandi var að þessum breytingum á vöruvali og engin kynning fór fram til að upplýsa neytendur. Fjölmargir bifreiðaeigendur hafa haft samband við skrifstofu FÍB sem segja að þessi breyting hafi komið flatt upp á þá. Getur verið að yfirvöld neytendamála á Íslandi hafi enga aðkomu að þessum breytingum á innihaldi 95 oktan bensíns sem allir landsmenn verða núna að kaupa? Svona vinnubrögð vekja furðu á upplýsingaöld.

Sagt er að markmiðið með því að bjóða upp á E10 sem staðalbensín á bensínstöðvum sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna bensínbruna. Haft var eftir Þórði Guðjónssyni forstjóra Skeljungs á RÚV þann 14. maí sl. að samdráttur í kolefnislosun frá samgöngum á landi samsvaraði því að leggja allt að átta þúsund bensínbílum.

Það er jákvætt að draga úr kolefnislosun frá samgöngum en að bjóða einhliða nánast eingöngu upp á E10 bensín hefur í för með sér áskoranir. Í Bretlandi er áætlað að um 600.000 ökutæki í umferð geti ekki notað E10 eldsneytið. Ekki er vitað hver þessi tala er hér á landi en varlega áætlað miðað við bresku tölurnar gæti verið um að ræða einhverja tugi þúsunda ökutækja. Margir þessara bíla eru í eigu þeirra sem minna hafa umleikis. Í sumum tilvikum er eini valkosturinn að nota 98 oktan bensín sem er mun dýrara og til sölu á fáum bensínstöðvum aðallega á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Í nágrannalöndum okkar geta neytendur auk E10 keypt E5, 95 oktan bensín og 98 oktan bensín.

Hvaða bílar

Að jafnaði er ökumönnum bifreiða sem nýskráðar voru fyrir árið 2002 ráðlagt að nota ekki E10 á sínar bifreiðar. Frá og með 2011 eiga allir nýir bílar á Íslandi að vera E10 samhæfðir.

Sjá hér upplýsingar um notkun á E10 eftir bílategundum:

Vandamál

Ef sett er E10 eldsneyti á bíl sem ekki er gerður fyrir 10% etanólbensín þá mun hann ganga fyrst um sinn en þéttingar, plast og málmar geta skemmst á lengri tíma vegna ætandi eiginleika lífetanóls. Rakaþéttni eykst, sem getur verið til vandræða m.a. í eldsneytistönkum ef bíllinn stendur ónotaður í langan tíma.

Eigendur fornbíla þurfa að vera sérstaklega á varðbergi varðandi það að fylla ekki óvart með E10 því ef það nær að liggja í bensíntanki bílsins um lengri tíma mun það líklega leiða til skemmda.

Sérfræðingur frá systurfélagi FÍB á Bretlandseyjum segir að fólk sem fylli óvart á bíla sem ekki uppfylli kröfur fyrir E10 þurfi ekki að örvænta. Það sem þarf að gera er að setja rétt eldsneyti á bílinn eins fljótt og auðið er eða þegar búið er að nota um þriðjung til helming bensínsins. Þegar verið er að nota blandaða bensínið getur það orsakað lélega kaldræsingu og grófan gang.

Aukin eyðsla

Etanólblandað bensín hefur minna orkuinnihald. Bandaríska orkustofnunin (EIA) segir að orkuinnihald etanóls sé um 33% minna en orkuinnihald 95 oktan bensíns. Áhrif etanóls á eldsneytissparnað ökutækja er einnig mismunandi eftir magni þeirra náttúruefna sem bætt er við etanólið. EIA segir að almennt geti sparneytni ökutækja minnkað um 3% þegar E10 er notað. (https://www.eia.gov/tools/faqs/faq.php?id=27&t=10)