Hvernig myndu Norðmenn leysa umferðaröryggismál Suðurlandsvegar að Selfossi og Vesturlandsvegar að Hvalfjarðargöngum?

http://www.fib.is/myndir/RognvaldurJonsson.jpg
Rögnvaldur Jónsson verkfræðingur.


Á undanförnum árum hef ég kynnt mér hvernig norska vegagerðin meðhöndlar þá vegarkafla sem hafa meiri slysatíðni en almennt er á vegakerfinu. Hún notar aðallega þrjár aðferðir:

a) Bygging nýrra vega eða endurbætur á þeim. Hér er um að ræða bygging 2+2 vega þar sem umferð er mikil ( meiri en ca.15.000 bílar á dag). Bygging tveggja akreina vega með eða án vegriðs til að aðskilja akstursstefnur og breikkun og lagfæringu á legu vegar ásamt fækkun og byggingu nýrra gatnamóta.

b) Aðskilja akstursstefnur tveggja akreina vega með vegriði. Í nokkrum tilfellum eru akreinar aðskildar þannig að framúrakstur er útilokaður.

c) Lækkun á leyfðum hraða þar sem umferðarslys eru tíð. Á tveggja akreina þjóðvegum er leyfður hraði 80 km/klst og er hraðinn tekinn niður í 70, 60. eða 50 km/klst háð aðstæðum og fjölda slysa. Þessir vegarkaflar eru mjög vel merktir þannig að ökumenn fá öruggar upplýsingar um leyfðan hraða. Oft eru hraðamyndavélar á þessum vegarköflum þar sem slys hafa verið tíð.

Noregur er með einna fæst dauðaslys af löndum heims og er það aðallega vegna eftirfarandi aðgerða:

a) Lækkun á leyfðum hraða á þeim vegarköflum þar sem umferðarslys eru tíð

b) Mikil og góð löggæsla bæði hjá lögreglu og með hraðamyndavélum

c) Ströng viðurlög við umferðarlagabrotum þar sem bæði er um að ræða háar sektir og fangelsisdóma fyrir alvarlegustu brotin

Norskir ökumenn fylgja vel takmörkunum um leyfðan hraða og þannig fækka þeir slysum og lágmarka afleiðingar þeirra slysa sem verða En hvaða myndi nú norska vegagerðin gera í tilfelli Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar?

Ef samkvæmt úttekt á alvarleika slysa sem norska vegagerðin mundi gera, sýndi að þessir tveir vegarkaflar reyndust með fleiri alvarleg slys en að öðru jöfnu á vegakerfinu þá mundi hún líklega gera þetta:

a) Byrja á því að lækka leyfðan hraða í 80 km/klst ásamt því að auka löggæslu til muna. Einnig mundi hún setja hraðamyndavélar á hættulegustu vegarkaflana.

b) Aðskilja akstursstefnur hættulegustu vegarkaflanna og hækka í kjölfarið leyfðan hraða á þeim í 90 km/klst.

c) Fækka gatnamótum og byggja hringtorg.

Þeir sem raunverulega hafa áhuga á því að auka strax umferðaröryggi þessara tveggja vegarkafla ættu að beina kröftum sínum að sömu aðferðum og norska vegagerðin notar með góðum árangri í staðinn fyrir að krefjast þessa að eytt verði tugum milljarða í framkvæmdir sem taka langan tíma og myndu ekki skila fullum árangri fyrr en þeim er lokið.