Hvert fara allir þeir peningar sem innheimtir eru af bifreiðaeigendum?

Í áhugaveðri aðsendri grein til Stundarinnar fjallar Sigríður Arna Arnþóradóttir, landfræðingur, um vegtolla. Í upphafi greinarinnar segir greinarhöfundur. Vegtollar! Hið ætlaða samþykki þjóðarinnar sem ráðamenn gera ráð fyrir er bara alls ekki til staðar. Þeir þingmenn og sú stjórn sem nú sitja við völd voru ekki kosin af þjóðinni til að fjölga hér skattstofnum og innheimtuleiðum. Það er mikill misskilningur að svo sé og því þarf að hvetja stjórnvöld til að snúa sér að öðrum leiðum til fjáröflunar.

Sigríður Arna heldur áfram. Í þessu sambandi ætla ég að vitna í þingsályktunartillögu sem lögð var fram á Alþingi fyrir um það bil 20 árum og var svohljóðandi: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er kanni hvort unnt sé að beita veg­tollum til þess að draga úr þörf á gerð samgöngumannvirkja, stuðla að minni mengun og afla fjár til vegagerðar.“

Flutningsmenn voru þau Einar K. Guðfinnsson, Sjálfstæðisflokki; Össur Skarphéðinsson, Samfylkingu; Kristín Ástgeirsdóttir, Samtökum um kvennalista; Sigríður Jóhannesdóttir, Samfylkingu; Árni M. Mathiesen, Sjálfstæðisflokki og Kristín Halldórsdóttir, Samtökum um kvennalista.

Þetta er mjög athyglisvert því þarna sáu stjórnmálamenn fyrir sér að nýta vegtolla sem stjórntæki til að draga úr umferð. Hið háa Alþingi sá sem sagt fyrir sér að ráða því hvort við færum í bíltúr eða ekki. Vegtollarnir áttu jafnframt að draga úr þörfinni á frekari gerð samgöngumannvirkja.

Það er einnig athyglisvert að vegtollar, hvort heldur þeir eru skoðaðir í nútíma eða 20 ára fjarlægð, skapa mismunun milli fólks. Mismunurinn felst í því að lægsta verðið fæst með því að kaupa margar ferðir í einu, það geta eingöngu þeir fjársterkari. Fólk sem hefur minna milli handanna er líklegra til að hafa eingöngu efni á einni ferð í senn.

Þá segir Sigríður Arna að árum saman höfum við haft hin ýmsu innheimtukerfi gjalda til vegagerðar. Við höfum bifreiðagjöldin og þau eru alls ekki lág, á sínum tíma voru þau lögð á sem eingreiðsla sem margir muna eftir og kallað var krónugjaldið, það átti bara að vera í eitt ár!  Þess utan höfum við vörugjöld af ökutækjum, vörugjöld af bensíni, olíugjald og kílómetragjaldið. Og nú vilja menn bæta við einum innheimtuflokknum enn!

Er ekki réttara að nýta þá stofna sem fyrir eru áður en farið er í að leggja á nýja skattastofna sem í eðli sínu eru afar dýrir. Fyrir það fyrsta er um að ræða afar dýrar myndavélar sem eiga fylgjast með ferðum okkar um allt land, þó aðallega um suðvestanvert landið. Ef eitthvað bregður út af, til dæmis varðandi greiðslu, þá er tekin mynd af bílnúmerinu og upplýsingarnar fara til skrifstofu sem getur verið hvar sem er í heiminum. En þetta var nú bara smá útúrdúr til að sýna fram á hve þungt í vöfum þetta verður fyrir almúgann.

Greinina í heild sinni á Stundinni má nálgast hér.