Karlar fá bíla á betra verði en konur

http://www.fib.is/myndir/Konakaupirb%EDl.jpg

Breska bílatímaritið What Car? Hefur rannsakað kaupsaminga um bíla sem konur gera og sem karlar gera. Í ljós hefur komið að karlar ná betri samingum og kjörum en konurnar í bílakaupum. Í ljós kemur skýrt og greinilega að bílasalar gefa körlunum betra verð en þeir gefa konum.

Lengi hefur það verið vitað að konur nálgast bílakaup á annan hátt en karlar eins og greint hefur verið frá áður hér á þessum fréttavef. Konur leggja yfirleitt meira upp úr öryggi bílsins, ekki síst fyrir börn, og notagildi hans fyrir fjölskyldu og heimili.

En nú hefur könnun What Car? Leitt í ljós það sem marga hefur grunað, að bílasalarnir meðhöndla viðskiptavini sína mismunandi eftir því hvers kyns þeir eru og konurnar fá óhagstæðari verðtilboð en karlar fá við bílakaup.

Rannsóknin fór þannig fram að hópur kvenna og karla var gerður út á bílasölur til að leita eftir kaupum á tilteknum bílum.  „Kaupendurnir“ reyndu eftir fyrirfram ákveðnum línum að prútta niður ásett verð bílanna. Þegar árangur þessara kaupenda var borinn saman eftir kynjum kom í ljós að bílasalarnir buðu körlunum verð sem að meðaltali var um 70 þúsund ísl. krónum lægra en það verð sem þeir buðu konunum fyrir sömu bíla. Körlunum tókst í 55% tilfella að prútta niður verðið en konunum í 20% tilfella.