Kínversk bílaverksmiðja í Búlgaríu

Ritzau fréttastofan greinir frá því að kínverska bílaframleiðslufyrirtækið Great Wall, sem er í eigu kínverska ríkisins, ætli sér stóra hluti á evrópskum bílamarkaði. Fyrirtækið ræsti sl. þriðjudag nýja bílaverksmiðju í Búlgaríu og verða um tvö þúsund bílar framleiddir þar á þessu ári sem að sönnu telst ekki mikið. Það er vegna þess að verið er að stilla verksmiðjuna af og þjálfa starfsfólk. En strax á næsta ári er áætlað að framleiða 50 þúsund bíla.

Kínverskir fólksbílar og reyndar stórir fólksflutningabílar (rútur) líka, eru þegar orðnir allmargir í Evrópu, einkum austanverðri. Þeir eru flestallir byggðir í heimalandinu. Nýja verksmiðjan í Búlgaríu er hins vegar fyrsta kínverska bílaverksmiðjan í Evrópusambandslandi. Forstjóri Great Wall sem heitir Wang Fengying , var viðstaddur gangsetningu nýju verksmiðjunnar. Hann sagði við það tækifæri að markmiðið væri að taka evrópska bílamarkaðinn með trompi og byrja á Makedóníu, Albaníu, Svartfjallalandi og Serbíu. Síðan kæmi röðin að öðrum Evrópuríkjum.