Land Rover barnið

Fyrstu myndirnar af nýja litla Land Rovernum sem kallaður er LRX hafa lekið inn á netið.  Myndirnar sýna fjölnota tvennra dyra bíl með aftursæti (coupé).  Bíllinn verður frumsýndur á bílasýningunni í Detroit í janúar á nýju ári.

Talsmenn Land Rover segja LRX bílinn til marks um nýjar áherslur í þeirra hönnun. Straumlínulögun og sportlegt útlit einkenna nýja bílinn.  Auðkennum Land Rover er þó haldið með grillinu og skyggðum rúðum með dökkum póstum.  

Land Rover LRX fram

Land Rover LRX er einum sentímetra styttri og 25 sentímetrum lægri en Land Rover Freelander.  LRX  er með sömu vélar og byggir á sama undirvagni og Freelanderinn.  Land Rover hefur þróað fjórhjólakerfið sitt ,,Terrain Response“ sérstaklega fyrir LRX Roverinn og búnaðurinn er sagður tryggja öruggan akstur við erfiðar aðstæður og á vegleysum.

Land Rover reynir líkt og flestir bílaframleiðendur að bæta umhverfisímynd merkisins með því m.a. að notast við endurvinnanleg hráefni í innréttingum og víðar.  Önnur nýjung er stopp-start kerfi sem drepur sjálfvirkt á vélinni þegar stoppað er (stigið á hemlafetil) í skemmri tíma og endurræsir þegar ekið er af stað.  Um er að ræða sérhæfðan rafbúnað og startmótor sem dregur úr eldsneytisnotkun.