Með veggjöldum sé verið að skattleggja næst stærsta útgjaldalið heimilanna

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, sagði í morgunútvarpi á Rás 2 í morgun að 90% af ferðum í höfuðborginni til og frá vinnu séu farnar með einkabíl. Fram kom ennfremur í máli Runólfs að íbúum á höfuðborgarsvæðinu hafi fjölgað um 40 þúsund á síðustu árum á meðan lítið hafi verið um samgönguframkvæmdir. Farþegum í strætisvögnum hafa hlutfallslega ekki fjölgað mikið.

Runólfur var spurður að því í Morgunútvarpinu hvort hann telji að verið sé að þvinga fólk til þess að hætta að nota einkabílinn og nota almenningssamgöngur.

„Um 90 prósent ferða í höfuðborginni til og frá vinnu eru með bíl. Það hefur stórfjölgað farþegum í strætó en af því að fjölgunin hefur verið svo mikil á íbúum þá er Strætó ekki að auka við hlutdeild sína á markaði. Markmiðið er að árið 2030 séu 52 prósent ferða í einkabíl. Þetta er gríðarlegt stökk niður á við úr 90 niður í 52 prósent.  Líklega þurfum við að sjá einhverja svona þróun gerast.“

Veggjöld bar á góma í þættinum á Rás 2 í morgun en FÍB hefur gagnrýnt þær hugmyndir að fjármagna samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu með veggjöldum. Runólfur segir að með veggjöldum sé verið að skattleggja næst stærsta útgjaldalið heimilanna í landinu, eign og rekstur einkabílsins. Hátt í 80 milljarðar króna séu greiddir af bílum í formi skatta og gjalda árlega; 60 milljarðar króna utan virðisaukaskatts.

Runólfur fagnar því að í fjárlagafrumvarpinu sé talað um innspýtingu um 27 milljarða í nýframkvæmdir í samgöngum á næsta ári. Hann segir að gjöld á einkabílinn séu með þeim hærri í heiminum.

Umfjöllunina og viðtalið við Runólf Ólafsson á Rás 2 má nálgast hér.