Ný brú yfir Þorskafjörð formlega opnuð

Ný brú yfir Þorskafjörð hefur formlega verið tekin í notkun. Klippt var á borða á brúnni að viðstöddu fjölmenni í gær. Óhætt er að setja að mikil gleði hafi ríkt við athöfnina, enda um að ræða miklar samgöngubætur fyrir þetta svæði sem tengir það betur við landið allt.

Smíði brúarinnar gekk vel en með þverun Þorskafjarðar styttist Vestfjarðavegur um 10 km. Framkvæmdin er átta mánuðum á undan áætlun. Nýja brúin er 260 m löng, tvíbreið, staðsteypt, eftirspennt bitabrú í sex höfum. Auk hennar voru gerðar vegfyllingar á 2,7 km kafla. Verklok voru áætluð í lok júní 2024 og er framkvæmdin því langt á undan áætlun. Með nýrri brú leggst af um 10 km kafli á núverandi Vestfjarðarvegi ásamt einbreiðri brú á Þorskafjarðará frá árinu 1981.

Við lok þessara framkvæmda þarf ekki lengur að aka um Hjallaháls sem er í 336 metra hæð. Þegar öllum framkvæmdum við Vestfjarðarveg í Gufudalssveit verður lokið verður heildarstytting vegarins um 22 km, þ.e. þegar lokið hefur verið við að þvera Gufufjörð og Djúpafjörð. Aksturstími styttist um 30 mínútur.