Nýi Benz pallbíllinn er Nissan

Nú er komið í ljós að pallbíllinn sem forstjóri Mercedes Benz boðaði rétt fyrir sl. mánaðamót verður ekki alfarið Benz-hönnun og -smíði eins og forstjórinn sagði þá, heldur verður Benz pallbíllinn í grunninn ný kynslóð Nissan Navara pallbílsins sem heitir Nissan NP300. Framleiðsla á NP300 er um það bil að hefjast í verksmiðjum Renault-Nissan á Spáni. En sem Mercedes Benz (og Renault sömuleiðis) verður pallbíllinn einnig framleiddur í bílaverksmiðju Renault-Nissan í Cordoba í Argentínu.  Framleiðslan á bílnum með Mercedes Benz stjörnunni fer af stað á næsta ári.

http://fib.is/myndir/NissanNavara.jpg
Nissan NP300.

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá Renault-Nissan og Daimler, móðurfélagi Benz segir að með þessum nýja Benz pallbíl eflist samstarf framleiðandanna tveggja verulega, en fyrir eru aðilarnir í samstarfi um framleiðslu á sendibílnum Renault Kangoo/Mercedes Benz Citan. Í yfirlýsingunni er ekkert minnst á markaðssetningu Benz pallbílsins í Bandaríkjunum en megin markaðssvæði hans sagt verða Evrópa, Ástralía, S. Afríka og S. Ameríka. Dieter Zetsche segir ennfremur í yfirlýsingu að hið trausta samstarf við Renault-Nissan geri það mögulegt fyrir Daimler að ná fótfestu á hinum risastóra og vaxandi pallbílamarkaði heimsins bæði miklu fljótar og með minni tilkostnaði en ella.

Sjálfur bíllinn er annars meðalstór pallbíll með eins tonns burðargetu. Verksmiðjan á Spáni mun framleiða samtals um 120 þúsund bíla á ári undir merkjum Mercedes Benz, Nissan og Renault. Í Argentínu verður ársframleiðslan samtals um 70 þúsund bílar.