Nýjar og hertar CO2-reglur í Evrópu á morgun?

http://www.fib.is/myndir/European-Union.jpg

Í gær og dag hafa staðið yfir stífir fundir hjá Evrópusambandinu og Evrópuþinginu um nýjar reglur um útblástur frá bílum. Búist er við að niðurstaðan verði tilkynnt síðar í dag eða á morgun, fimmtudag. Megintlgangurinn er þó skýr – CO2  útblástur nýrra bíla sem framleiddir eru í Evrópu skal minnka umtalsvert og á helst að verða 120 grömm á ekinn kílómetra og alls ekki meiri að meðaltali en 130 grömm á ekinn kílómetra og skal þessu marki náð í síðasta lagi 2012.

Um verulega stórt skref er að ræða því að árið 2005 var meðalútblástur bíla í Evrópu af CO2 162 grömm á kílómetra og í Noregi var meðalútblástur allra bíla nýskráðra bíla árið 2006 177 grömm á kílómetra.

Æðsti maður umhverfisverndarmála hjá Evrópusambandinu heitir Stavros Dimas.  Hann segir að menn þar séu harðákveðnir í því að lögbinda það hversu CO2 útblástur má vera mestur frá bílum. Hann segist sannfærður um að þetta sé skynsamlegt og muni leiða til þess að evrópskur bílaiðnaður muni framvegis byggja hreinlegri bíla. Reiknað hafi verið út að vel sé hægt að draga úr CO2 útblæstri bíla svo mjög að auðveldara verði að uppfylla kröfur Kyotobókunarinnar.

En bílgreinin í Evrópu er ekki jafn bjartsýn. Samtök evrópskra bílaframleiðenda (European Automobile Manufacturers Association - ACEA) segja að ef eigi að draga enn meir úr CO2 útblæstri en áður hafði verið ætlunin að gera, muni það kosta mjög mikið og hafa óæskilegar afleiðingar fyrir starfsfólk í bílaiðnaðinum og verð nýrra bíla muni hækka.
Þær afleiðingar sem þetta muni hafa fyrir starfsfólk segja ACEA-menn að muni verða þær að störfum muni fækka og framleiðslan flytjast til landa þar sem kröfur um útblástursmengun eru ekki eins harðar.

Að mati ACEA er lausnin sú að bílaframleiðendur, löggjafarvaldið, dekkjaframleiðendur og bifreiðaeigendur o.fl. vinni í sameiningu að því markmiði að draga úr útblæstri. Það verði m.a. gert með því að auka hlut lífræns bílaeldsneytis og skattleggja bíla mismikið eftir því hversu CO2 útblástur þeirra er mikill, kenna ökumönnum eldsneytissparandi ökulag og ganga frá vegum og vegamótum þannig að umferð flæði betur og ekki myndist umferðarstopp og umferðarhnútar.
-    
Ekki er alger eining um þessar hertu kröfur innan ES því að Günter Verheugen sem er sá ráðherra Evrópusambandsins sem fer með málefni iðnaðar og iðnþróunar segir að það sé algerlega óraunhæft að hægt sé að ná þessum markmiðum á næstu fimm árum. Það verði einkum framleiðendur stórra bíla og lúxusbíla sem verði illa fyrir barðinu á nýju lögunum, nái þau fram að ganga. Lagðir verði á þá óréttlátir skattar og álögur því að útilokað sé fyrir fyrirtæki eins og Porsche, Jaguar og Land Rover  að ná að uppfylla kröfurnar á einungis fimm árum. Þá muni reglurnar koma mis vel við bílaframleiðsluríki Evrópu því að Þjóðverjar byggi mun meira af stórum og aflmimklum bílum en t.d. Frakkar og Ítalir.