Nýtt punktakerfi fyrir danska ökumenn

The image “http://www.fib.is/myndir/Vontbland.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Þann 1. september tóku Danir upp virkt punktakerfi fyrir ökumenn sem staðir eru að því að brjóta af sér í umferðinni. Jafnframt tóku gildi verulega hert viðurlög við því að aka undir áfengis- eða lyfjaáhrifum.
FDM lýsir punktakerfinu þannig að það virki eins og þegar ferðast er í almannasamgangnakerfinu með klippikort, sem stungið er í vél í lestinni eða strætisvagninum. Vélin klippir síðan bita af kortinu í hvert sinn og þegar ekki er meira að klippa, er kortið útrunnið. En brjóti fólk af sér í umferðinni „klippir“ lögreglan af ökuskírteininu og í reglugerð eru tilgreind hin ýmsu umferðarbrot sem gefa eitt „klipp“ eða fleiri. Þrjú klipp þýða að ökumaður missir ökuskírteinið og fær það ekki aftur nema að standast aftur bóklegt og verklegt ökupróf. En ungir ökumenn sem hafa haft ökuréttindi í þrjú ár eða skemur þurfa hins vegar ekki nema tvö klipp til að missa skírteinið. Hvert klipp fyrnist á þremur árum.  
Eftirfarandi brot þýða eitt klipp í skírteinið:
Ekið 30 prósent yfir hámarkshraða
Ekið of nærri næsta ökutæki fyrir framan
Ekið í neyðarakrein á veggkanti eða á vegöxl
Ekið með börn undir 15 ára í bílnum með óspennt bílbelti
Ekið á mótorhjóli með 8-15 ára farþega sem ekki er með öryggishjálm á höfði
Ekið gegn rauðu ljósi
Hundsa bið- eða stöðvunarskyldu
Framúrakstur þar sem hann er bannaður
Ekið yfir óbrotna línu í framúrakstri
Auka hraðann þegar annar er að aka framúr
Ekið framúr á gangbraut
Ekið móti einstefnu
„Stórsvig“ milli akreina í þéttri umferð
Snöggskipt um akstursstefnu á vegi (U-beygjur) til truflunar og vandræða fyrir aðra
Hægur akstur (hangs) á vinstri akrein að óþörfu
Kappakstur og spyrnur á götum og vegum
Akstur yfir járnbrautarspor þegar merki hefur verið gefið um að lest nálgist
Leiði eitthvert ofantalinna atriða til óhapps eða slyss skal lögregla svipta hinn brotlega ökuskírteininu á staðnum.

Ef ökumaður reynist hafa drukkið áfengi og mæling lögreglu á staðnum bendir til að áfengismagnið í blóðinu sé 0,51 prómill er ökumaðurinn sviptur skírteininu á staðnum. 0,51 prómill þýðir undir öllum kringumstæðum það að viðkomandi missir skírteinið skilorðsbundið og ungir ökumenn með þriggja ára ökuréttindi eða minna verða að gangast undir nýtt ökupróf.  
Þessu til viðbótar fá áfengisökumennirnir sekt sem miðast við nettó-mánaðarlaun þeirra og eru talan margfölduð með áfengismagninu. Sá sem hefur 200 þúsund kall á mánuði eftir skatta og er tekinn með 0,75 prómill þarf þannig að greiða 150 þúsund króna sekt. Þar á ofan skal viðkomandi sækja námskeið um akstur og áfengi í allt að tíu klst. Námskeiðið kostar 20 þúsund krónur.
Reynist áfengismagn 1,2 prómill eða meira missa menn auk þess ökuréttindi í þrjú ár við fyrsta brot og sé magnið enn meir er refsing ennþá harðari.