Obama setur verndartolla á Kínadekk

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að innleiða háa innflutningstolla á hjólbarða frá Kína. Þessir hátollar eiga að gilda í þrjú ár og fara stiglækkandi. Bæði innflytjendur og kínversk stjórnvöld mótmæla tollunum harðlega. Tollarnir eru settir fyrst og fremst til þess að vernda bandaríska hjólbarðaframleiðslu.

 
Barack Obama.  

Innan Evrópusambandsins hefur líka gætt andstöðu við ódýr dekk frá Kína, ekki síst frá bifreiðaeigendafélögunum en ekki af efnahagslegum ástæðum, heldur öryggisástæðum. Kínadekkin hafa nefnilega komið illa út úr prófunum. Þau hafa lélega aksturseiginleika og lítið slitþol.  

Bandarísku vernartollarnir sem eiga að verja innlendu framleiðsluna fyrir Kínadekkjunum í Bandaríkjunum verða 35 prósent fyrsta árið, 30 prósent annað árið og loks 25 prósent þriðja og síðasta árið sem þessi sérstöku tollalög eiga að gilda. Í upphaflega lagafrumvarpinu var reyndar gert ráð fyrir 55 prósenta tolli fyrsta árið. 

Verndartollarnir eru settir að ósk verkalýðssamtaka í bandaríska hjólbarðaiðnaðinum sem kvartað hafa undan því að Kínainnflutningurinn hafi eyðilagt þúsundir starfa í Bandaríkjunum. Chen Deming viðskiptaráðherra Kína brást harkalega við fyrirætlunum Bandaríkjamanna um vernartollana og sagði að þeir sýndu verndar- og einangrunarhyggju Bandaríkjanna í skíru ljósi. Robert Gibbs, blaðafulltrúi Hvíta hússins segir að ákvörðunin brjóti ekki í bága við reglur heimsviðskiptastofnunarinn WTO og að meiningin sé einungis að skapa réttláltar leikreglur.

Á síðasta ári var markaðshlutdeild Kínverja á bandarískum dekkjamarkaði um 11 prósent. Kínadekkin hafa verið  verulega, eða um helmingi ódýrari en dekk af þekktum og viðurkenndum vörumerkjum.