Ofurmeðgjöf með rafbílum

Sænsk stjórnvöld ætla að styrkja alla kaupendur rafbíla, ekki bara einstaklinga heldur líka fyrirtæki, myndarlega þegar rafbíll er keyptur. Ríkið ætlar að borga 40 þúsund sænskar króna hvatningarstyrk með hverjum seldum rafbíl. Framkvæmdastjóri sænska bílgreinasambandsins segir að þetta ætti að hraða talsvert innleiðingu rafbíla til Svíþjóðar.

Rafbílar hafa að sönnu ekki átt mjög upp á pallborðið hjá Svíum fram að þessu. Það sem af er árinu hafa einungis 141 rafbíll verið nýskráður í landinu. Nýja stóra meðgjöfin á hins vegar að duga fyrir 5 þúsund bílum. 200 milljónir sænskra króna hafa verið eyrnamerktar til þessa verkefnis.

Upphaflega átti ríkismeðgjöf með rafbílum einungis að renna til einstaklinga sem fengju sér rafbíla. Það þótti ýmsum hins vegar ekki góð latína og töldu að markmið um fjölgun rafbíla næðu miklu greiðar fram að ganga ef fyrirtæki gætu líka fengið styrkinn. Mörgum fyrirtækjum sem reka flota af bílum til snatts og skutls milli húsa í þéttbýli gætu nefnilega nýst rafbílar betur en venjulegu fólki sem vill geta notað bíla sína til fleira en snattaksturs á stuttum innanbæjarleiðum. Fyrirtæki gætu frekar en einstaklingar séð sér hag í því að fá sér rafbíla.

Nú hefur sænska ríkisstjórnin ákveðið að koma til móts við þessi sjónarmið og það telur framkvæmdastjóri sænska bílgreinasambandsins góð tíðindi. Þau muni mjög líklega þýða það að rafbílum fjölgi en líka það að innan fárra ára verði líka til blómlegur endursölumarkaður fyrir rafbílana þegar fyrirtækin endurnýja bílana.