Olíufélögin hrifsa til sín verðlækkanir

http://www.fib.is/myndir/Bens%EDnd%E6la01.jpg

Olíufélögin eru ótrúlega treg til að skila almenningi til baka þeim verðlækkunum sem orðið hafa undanfarið á heimsmarkaðsverði eldsneytis. Á undanförnum 6 vikum hefur orðið hátt í fjórðungs lækkun á verði bensíns og dísilolíu. Þessar verðlækkanir hafa síður en svo skilað sér í lækkun hér á landi sem þýðir aðeins eitt: Olíufélögin hafa verið að hækka álagningu sína stórkostlega.

Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB sagði í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi að þetta þýddi það eitt að í stað þess að almenningur nyti verðlækkunar á heimsmarkaði í lægra eldsneytisverði hrifsuðu olíufélögin mismuninn til sín. Á ársgrundvelli væru félögin með þessu móti að ná til sín milljarði króna úr vösum almennings í landinu.

FÍB hefur um langt árabil fylgst náið með heimsmarkaðsverði á eldsneyti. Upplýsingar um það fær félagið reglulega frá einum trúverðugasta fréttamiðli heims um fjármál - Financial Times og umreiknar í ísl. kr. í samræmi við gengi krónunnar gagnvart dollar og vísitölur á hverjum tíma. Þannig fæst skýr mynd af eldsneytisverði á Íslandi og álagningu olíufélaganna á hverjum tíma.

Um síðustu helgi birti Landssamband kúabænda svo niðurstöður eigin athugana á verði dísilolíu á Íslandi sem eru mjög í samræmi við niðurstöður FÍB enda byggðar á sumpart svipuðum og sumpart sömu gögnum og FÍB notar við sína útreikninga. Athugunin er mikið fagnaðarefni. Óskandi er að Landssambandið haldi henni áfram og birti niðurstöður sínar reglulega.

Viðbrögð olíufélaganna voru hins vegar eins og vænta mátti og jafnan hafa verið við niðurstöðum FÍB um þessi mál, að þær séu tóm vitleysa, byggðar á röngum forsendum og vitlausri úrvinnslu. Að vísu hefði álagning eitthvað hækkað en alls ekki um nein 23 prósent eins og Landssamband kúabænda héldi fram. Hærri álagning væri tilkomin vegna hækkaðs kostnaðar, einkum fjármagnskostnaðar.

Dagblaðið DV, eitt fjölmiðla, spurði þá talsmenn ollíufélaganna um hver þessi fjármagnskostnaður eiginlega væri og ennfremur hver væri þá álagningin nákvæmlega ef hún væri einhver önnur en Landssamband kúabænda og FÍB halda fram. Svarið var þá að það væri ekki hægt að reikna það út. Er mark takandi yfirleitt á mönnum sem svona tala og svona hegða sér? Sjá einnig frétt DV hér