Rukkuð um gamla tryggingaskuld fyrri eiganda eftir bílakaup

Í gær sagði fréttastofa RÚV frá því að fólk sem hafði keypti bíl í febrúar hefði verið krafið um greiðslu rúmlega 300 þúsund króna tryggingaskuldar. Fyrri eigandi greiddi ekki tryggingar af bílnum og því átti að ganga á nýju eigendurna sem voru alls grunlausir um skuldina. Fólkið keypti sér Ford Explorer í febrúar og áttu þau ekki von á að fá innheimtubréf nokkrum mánuðum síðar upp á rúmar 300 þúsund krónur.

„Við vorum bara fyrst og fremst hissa. Við eiginlega skildum ekkert í þessu. Við vissum ekki að við hefðum stofnað til einhverrar skuldar,“ segir Hildigunnur Ólafsdóttir í samtali við fréttastofu RÚV.

„Það stóð allavega nafnið á manninum mínum á bréfinu og númerið á bílnum sem við vorum nýbúin að kaupa en við könnuðumst ekki við neitt annað.“

Innheimtan var vegna tryggingaskuldar sem var á gjalddaga ári áður en þau keyptu bílinn. Bíllinn hafði gengið kaupum og sölum tvisvar áður en nýju eigendurnir voru rukkaðir vegna skuldar þar síðasta eiganda.

Vilhelm Grétar Ólafsson eiginmaður Hildigunnar, sem er skráður fyrir bílnum, fékk bréf frá Lögheimtunni sem skoraði á hann að sjá til þess að skuldin yrði greidd innan tíu daga frá dagsetningu bréfsins. Annars yrði krafan innheimt með atbeina dómstóla og/eða sýslumanns. Tekið var fram að skuldin væri með lögveð í bílnum.

Höfuðstóll kröfunnar er 200 þúsund krónur. Ofan á það leggjast 39.502 krónur í vexti frá 14. febrúar 2023 til 23. apríl 2024. Þar við bætist 3.000 króna kostnaður kröfuhafa fyrir löginnheimtu, 1,860 krónur vegna upplýsingaöflunar, þriggja króna vextir af kostnaði og 63.420 krónur í innheimtuþóknun. Kostnaðurinn sem bættist ofan á höfuðstólinn var því orðinn tæpar 108 þúsund krónur áður en Vilhelm og Hildigunnur fréttu af kröfunni.

Kaupendurnir höfðu samband við bílasöluna og þar kom fram að tryggingaskuldin kom hvergi fram þegar flett var upp á veðböndum og skuldum við eigendaskiptin því hún var ekki skráð á bílinn, heldur fyrri eiganda.

Engin tól og tæki til að kanna svona skuld

„Við fáum ekki séð að við getum og höfum í raun og veru engin tól og tæki til að kanna svona skuld. Hún er ekki skráð á bifreiðina neins staðar,“ sagði talsmaður bílasölunnar við RÚV.

„Möguleikar okkar til að kanna eitthvað svona eru náttúrulega mjög takmarkaðir út af persónuverndarlögum líka. Allar upplýsingar um einstaklinga og fyrirtæki eru verndaðar af persónuvernd. Til dæmis get ég ekki einu sinni fengið þjónustusögu, smursögu bíls, hjá bílaumboði heldur verður eigandi bílsins að hafa samband og fá það sent á sig og svo okkur.“

Fram kom í frétt RÚV að Tryggingafélagið getur hins vegar gengið að nýjum eiganda vegna skulda fyrri eiganda samkvæmt lögum sem sett voru 2019. Í þeim lögum segir að lögboðið vátryggingargjald ásamt vöxtum og kostnaði hvíli sem lögveð á bílnum og gangi fyrir öllum öðrum skuldbindingum, nema gjöldum til ríkissjóðs, í tvö ár. Þar breytir engu þó sá sem stofnaði til skuldarinnar selji bílinn.

Í yfirlýsingu sem birtist á vef Sjóvá í ágúst 2020 var vakin athygli á að með lagasetningunni væri tryggingafélögum gert kleift að krefja nýjan eiganda að bíl um tryggingaskuld gamla eigandans. Fyrirtækið hvatti fólk til að fá staðfestingu frá seljandanum um að tryggingarnar hefðu verið greiddar áður en það gengi frá kaupunum. Samt lýsti fyrirtækið því yfir að það myndi ekki nýta þessa lagaheimild gagnvart einstaklingum meðan ekki væri hægt að nálgast upplýsingar um skuldastöðu með einfaldari hætti.

Þegar fréttastofa RÚV spurði Sjóvá hvað hefði breyst var svarið að Hildigunnur og Vilhelm hefðu verið rukkuð fyrir mistök.

Sjóvá hefur nú þegar afturkallað þetta tiltekna mál

„Sjóvá hefur ekki beitt þessari lagaheimild að rukka nýja eigendur ökutækja um skuldir fyrri eiganda,“ sagði Jóhann Þórsson, markaðsstjóri hjá Sjóvá, í skriflegu svari.

„Sjóvá hefur nú þegar afturkallað þetta tiltekna mál, sem var innheimt fyrir mistök. Við biðjumst velvirðingar á ónæðinu sem það olli nýjum eiganda.“

Ósanngjarnt að bílkaupendur geti átt á hættu að vera rukkaðir vegna skulda fyrri eigenda

Fréttastofa RÚV hefur upplýsingar um að önnur tryggingafélög hafi í einstaka tilfellum sent rukkun á nýja eigendur bíla eftir að ekki tókst að innheimta hjá þeim sem stofnaði til skuldarinnar. Það mun þó ekki hafa verið algengt.

Það er ósanngjarnt að bílkaupendur geti átt á hættu að vera rukkaðir vegna skulda fyrri eigenda, skulda sem þeir höfðu enga hugmynd um, segir lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu í samtali við fréttastofu RÚV.

Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu, segir að það sé ekki algengt að tryggingafélög sæki á nýja eigendur vegna skulda fyrri eigenda.

„Það hafa komið upp stöku tilvik og þeim virðist fara fjölgandi, alla vega að undanförnu.“ Innheimtan byggir á lögum frá 2020 um að tryggingaskuld myndi lögveð í bílnum.

„Það sem er náttúrulega kannski flóknast í þessu er að öfugt við til dæmis samningsveð eða önnur veð eru lögveð hvergi skráð heldur standa þau bara á lagabókstafnum,“ segir Benedikt. Því geti í raun fáir gengið úr skugga um að skuld sem tryggð er með lögveði hvíli ekki á bílnum sem þeir ætli að kaupa.