Rússar í Formúlu 1

Rússar eru sem óðast að hasla sér völl í Formúlunni. Formúla 1 keppni fer fram í fyrsta sinn í sögu keppninnar í Rússlandi árið 2012, Rússneski ökumaðurinn Vitaly Petrov, sá fyrsti í sögunni, keppir með Renault liðinu og nú hefur rússneska sport- og sérbílasmiðjan Marussia keypt Formúluliðið Virgin Racing.

Bernie Ecclestone er sagður hafa verið tíður gestur í Rússlandi og fleiri fyrrverandi austantjaldsríkjum að útbreiða Formúluna og kíkja eftir nýjum ökumönnum. Vitaly Petrov, rússneski ökumaðurinn sem nú er að ljúka sínu fyrsta Formúlukeppnistímabili þykir efnilegur og er búisst við að fleiri Rússar fylgi í kjölfarið.

 Í gær voru undirritaðir kaupsamningar um Virgin liðið milli Marussia. Marussia verður meirihlutaeigandi liðsins en Richard Branson verður áfram meðeigandi. Hann sagði við þetta tækifæri að þetta væri gleðilegur viðburður og  ætlun beggja væri að auka veg Virgin liðsins.

Marussia er fremur lítið fyrirtæki á mælikvarða bílaframleiðslunnar í veröldinni, eða svipað að umfangi og Koenigsegg í Svíþjóð. Það var stofnað árið 2007 og byggir einkum ofursportbíla eftir pöntunum en hefur einnig byggt brynvarða ofurjeppa fyrir lífhrædda milljónamæringa og aðra þá sem hafa ástæðu til að óttast um líf sitt og hafa efni og ástæður til að ferðast um í brynvörðum bílum.