Sala nýrra bíla dregst enn saman í Evrópu

Nýskráningum bíla á Evrópska efnahagssvæðinu fækkaði um 10,3 prósent í nóvembermánuði miðað við sama mánuð í fyrra. Nýskráningar sérhvern undangenginna 12 mánuða hafa þar með verið færri en hvern sama mánuð árið á undan.  Þetta kemur fram í frétt frá ACEA, samtökum bifreiðaframleiðenda í Evrópu.

Þegar nýskráningar undanfarinna nóvembermánaða allt aftur til ársins 2003 eru bornar saman kemur í ljós að hrap varð í nýskráningunum milli áranna 2007 og 2008 upp á 25,7 prósent. Milli áranna 2008 og 2009 varð 27,1 prósents stökk upp á við, sem rekja má til hvatninga og ívilnana stjórnvalda til fólks sem endurnýjaði gamla eyðslufrekari bíla yfir í nýja og sparneytna. En síðan þá hefur stefnan verið niður á við eins og lesa má úr súluritunum hér að neðan.

Í sl. nóvember voru nýskráðir samtals 926.486 bílar á Evrópska efnahagssvæðinu. Á tímabilinu jan.-nóv. á þessu ári eru nýskráningarnar samtals  11.255.094 bílar. Það er 7.6% minna en á sama tímabili í fyrra.

Þegar skoðaðar eru nýskráningar í nóvember sl. á einstökum markaðssvæðum innan Evrópska efnahagssvæðisins sést að það er ekki samdráttur alveg alls staðar milli ára. Í Bretlandi fjölgaði nýskráningum um 11.3%. Samdrátturinn hélt hins vegar áfram í Þýskalandi en þar varð hann -3.5%, -19.2% í Frakklandi, -20.1% á Ítalíu og -20.3% á Spáni.

Á tímabilinu jan.-nóv miðað við sama tímabil í fyrra fjölgaði nýskráningum í Bretlandi um 5,4% en fækkaði í Þýskalandi um -1.7%, Spáni um -12.6%, Frakklandi um -13.8% og Ítalíu um -19.7%. Heildar nýskráningartalan varð sem áður segir 11.255.094 bílar sem er sú lægsta síðan 1993.

http://www.fib.is/myndir/Nov.bilar-1.jpg
http://www.fib.is/myndir/Nov.bilar-2.jpg