Samdráttur í nýskráningum á Íslandi 19,2% – góð bílasala hinsvegar í Noregi

Nýskráningar fyrstu tvo mánuði ársins eru 1.133 og nemur samdrátturinn um 19,2%. Á sama tímabili í fyrra voru nýskráningar 1.403. Í febrúar einum voru nýskráningar 554 en í janúar voru þær 579.

Flestar nýskráningar voru í Toyota, alls 170, og í öðru sæti var Kia með 119 og Mitsubishi í þriðja sætinu með 87. Mercedes Benz, Volvo, Hyundai og Nissan komu síðan í næstu sætum.

Tengiltvinnbifreiðar voru með 28,9% hlutdeild, rafmagmsbílar 23,2%, hybrid 17,5%, dísil 16.0% og bensínbílar 14,5%

Þegar litið er til Noregs er annað hljóð í strokknum en þar jókst bílasala um 5.5% í febrúar. Það er eins og að heimsfaraldurinn lenti ekki á eins miklum þunga á þessa grein í Noregi og á Íslandi. Í febrúar í Noregi voru flestar nýskráningar í Toyota Rav4, alls 749 bílar. Volvo XC 40 kom í öðru sæti með 686 bíla, Audi -etron3 618 og Volvo XC 60 með 518 bíla.

Hlutdeild rafmagnsbíla í febrúar í Noregi var 47,5% og tengiltvinnbíla 31,6%.