Samningur um áframhald EuroRAP á Íslandi

 http://www.fib.is/myndir/Euroraplogo.jpg
Nýlega undirrituðu þeir Ólafur Kr. Guðmundsson verkefnisstjóri fyrir hönd FÍB og Karl Ragnars forstjóri fyrir hönd Umferðarstofu samning um að halda áfram samstarfi um EuroRAP vegrýni á Íslandi.

EuroRap er vegrýni þar sem vegir eru skoðaðir og metnir út frá öryggi þeirra fyrir vegfarendur. Sjálf skoðunin og úrvinnsla gagna fer fram samkvæmt stöðluðum aðferðum sem eru þær sömu allsstaðar í Evrópu og víðar í heiminum. EuroRAP er til orðið að frumkvæði alþjóðasamtaka bifreiðaeigenda, FIA. Félögin innan FIA sjá um framkvæmd EuroRAP hvert í sínu heimalandi. Hér er það því FÍB sem annast framkvæmd EuroRAP verkefnisins en með fjárhagslegum stuðningi Umferðarstofu fyrir hönd samgönguráðuneytisins. Auk þess styrkja eftirtalin fyrirtæki verkefnið með því að leggja því til bifreið og rekstur hennar: Bifreiðaumboðið Askja, Goodyear á Íslandi, Lýsing hf, Olíufélagið hf (Esso), Vátryggingafélag Íslands - VÍS og Landflutningar - Samskip.  Tæknilega aðstoð veita Vegagerðin, Loftmyndir ehf og Tölvuráð ehf..

http://www.fib.is/myndir/Rapparar.jpgUndanfarna mánuði hefur farið fram mikil undirbúningsvinna og tilraunir og prófanir á tækjabúnaði hafa farið fram undir stjórn sænskra verkfræðinga sem hafa yfirumsjón með framkvæmd EuroRAP í þeirra heimalandi. Þá hafa vegarkaflar út frá höfuðborgarsvæðinu, bæði austur yfir fjall, til Borgarness og að Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli verið skoðaðir og metnir og komin er út skýrsla um þá vinnu.

Skýrslan var kynnt á blaðamannafundi þann 15. ágúst sl. Þar lýstu Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Karl Ragnars forstjóri Umferðarstofu yfir vilja sínum til þess að halda verkefninu áfram. Það hefur nú verið staðfest með undirritun samnings Ólafs Guðmundssonar verkefnastjóra EuroRap á Íslandi og Karls Ragnars forstjóra Umferðarstofu.