Samræmdur hámarkshraði á Bústaðavegi

Hámarkshraði á Bústaðavegi hefur verið lækkaður úr 60 kílómetra hraða á klukkustund í 50 kílómetra hraða á klukkustund frá Kapellutorgi að Snorrabraut. Þetta þýðir að nú er hámarkshraði alls staðar sá sami á Bústaðavegi.

Skipulags- og samgönguráð samþykkti fyrr í mánuðinum tillögu þessa efnis frá Vegagerðinni. Áður var ráðið búið að samþykkja tillögu Vegagerðarinnar um lækkun leyfilegs hámarkshraða á Bústaðavegi á milli Kapellutorgs og brúar yfir Kringlumýrarbraut.

Tillagan var gerð að beiðni höfuðborgarsvæðis Vegagerðarinnar. Taldist það nauðsynleg umferðaröryggisráðstöfun að lækka hámarkshraða á þessum kafla.