Sigurvonir Carlos Sainz hafa fölnað

http://www.fib.is/myndir/Carlos.Sainz.jpg
Carlos Sainz - sigurlíkur hans orðnar litlar.

Nú styttist í það að Dakarrallinu ljúki. Eftir níunda áfanga keppninnar er Spánverjinn Marc Coma efstur í mótorhjólaflokki, annar er Cyril Despres frá Frakklandi.

Carlos Sainz á VW sem lengst af leiddi keppnina í bílaflokki hefur átt í örðugleikum vegna bilana seinasta kastið eins og Volkswagen liðið í heild og eru nú tveir Mitsubishi bílar í efstu sætunum. Efstur er Frakkinn Stephane Peterhansel og gamli heimsbikarmeistarinn á skíðum, Luc Alphand í öðru sæti. Í þriðja sætið hefur svo skotist Frakkinn Jean Louis Schlesser á sínum heimabyggða bíl sem aðeins er með drif á afturhjólunum. Volkswagenbílar eru nú komnir niður í sjötta, sjöunda, níunda og tíunda sæti og er Carlos Sainz í því tíunda þessa stundina.

Í dag verður tíundi áfangi keppninnar ekinn. Áfanginn er raunar einungis lykkja sem hefst og endar í bænum Nema í Máritaníu. Heildarvegalengd áfangans er 400 km, þar af eru tengileiðir samtals 34 km.

Upphaflega stóð til að 10. áfanginn skyldi ekinn frá Nema og inn í Malí til Timbúktú. Hætt var við það vegna þess að glæpagengi og uppreisnarhópar höfðu hótað mannránum úr hópi keppenda og aðstoðarfólks.
http://www.fib.is/myndir/FiatPanda-Dakar.jpg
Keppnisfarartæki eru af mörgu tagi í Dakar rallinu. Hér er eitt þeirra - Fiat Panda.