Sóknarfæri felast í orkuskiptum

 Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fjallaði um samgönguáætlun, framtíðarsýn í samgöngumálum og orkuskipti í ávarpi á aðalfundi Bílgreinasambands Íslands. Ráðherra sagði talsverð sóknarfæri felast í orkuskiptum í samgöngum og rafvæðingu bílaflotans, bæði fyrir umhverfið en einnig efnahag landsins.

 Í umfjöllun sinni um samgönguáætlun sagði Sigurður Ingi að framlög til samgöngumála hefðu verið stóraukin á kjörtímabilinu. Framlög hefðu þannig verið aukin um 20 milljarða á fyrsta tímabili núgildandi samgönguáætlunar.

 Ráðherra sagði að í tillögu að nýrri samgönguáætlun, sem væri nú til umræðu á Alþingi, væri boðað að flýta mörgum mikilvægum framkvæmdum. Sérstök áhersla væri til að mynda lögð á að klára aðskilnað akstursstefna á vegum kringum höfuðborgarsvæðið að Borgarnesi, að Leifsstöð og að Hellu á næstu 15 árum.  Hann sagði allar vegaframkvæmdir samgönguáætlunar hefðu sama markmið, að auka umferðaröryggi og stytta og bæta vegtengingar milli byggða. 

 Sigurður Ingi sagði að eitt sterkasta vopnið til ná markmiðum Íslands og annarra Norðurlanda væri að styðja við orkuskipti í samgöngum. Ánægjulegt væri að vistvænum fólksbílum hafi fjölgað talsvert.  Mikil sóknarfæri felast í orkuskiptum í samgöngum og rafvæðingu bílaflotans, bæði fyrir umhverfið en einnig efnahag landsins.