Stefnan er að tvöfalda höfuðleiðir út frá Reykjavík

http://www.fib.is/myndir/Stulliflagglitil.jpg

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagði í fyrirspurnatíma á alþingi í gær að hans pólitíska stefnumörkun sem samgönguráðherra hvað varðar höfuðleiðir út frá höfuðborginni væri sú að leiðirnar, bæði til Suðurnesja, austur fyrir fjall um Suðurlandsveg og Vesturlandsveg í norðurátt, verði tvöfaldar með aðgreindum akstursstefnum. „Það er hin pólitíska stefnumörkun af minni hálfu sem samgönguráðherra“ sagði Sturla Böðvarsson.

Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn frá Björgvin G. Sigurðssyni um mögulega tvöföldun Suðurlandsvegar frá Reykjavík að Selfossi. Ráðherra sagðist ennfremur telja koma vel til greina að standa að einkaframkvæmd hvað þetta varðar, ekki síst ef það yrði til að hraða framkvæmdum. Hann sagði að í nýrri samgönguáætlun sem lögð verður fyrir þingið eftir áramót myndi koma fram hvaða leiðir hann teldi að eigi að fara til að tryggja sem hraðasta framvindu þessarar framkvæmdar.