Tafir í framleiðslu hjá Tesla vegna árása á skip í Rauðahafi

Bílaframleiðendur víða um heim standa nú frammi fyrir því að þurfa að hægja á framleiðslu sinni næstu vikurnar sem rekja má til skorts á íhlutum. Ástæða þessa eru tafir á siglingum skipa vegna árása Húta á Rauðahafi.

Bandaríski bílaframleiðandinn Tesla þarf af þessum sökum að draga úr framleiðslugetu fyrirtækisins í verksmiðju sinni í Berlín. Forsvarsmenn Tesla binda vonir um að framleiðslan nái fullum afköstum eftir næstu mánaðarmót. Um 250 þúsund bílar eru settir saman árlega í verksmiðjunni í Berlín.

Mörg skipafélög hafa forðast siglingaleiðina sem liggur að Súez-skurði og valið mun lengri leið milli Evrópu og Asíu.