Þráðlaus upphleðsla rafbíla

Vera kann að ekki sé langt í það að ekki þurfi lengur að endurhlaða rafgeyma rafbíla með því að stinga þeim í samband við rafmagnsinnstungu. Það dugi að leggja þeim á tiltekna staði þar sem sérstakar hleðsluplötur eru greyptar í malbikið. Þá skili rafmagn úr plötunni sér þráðlaust inn í rafgeyma bílsins. Volvo gerir þessar vikurnar tilraunir með slíkan búnað í samvinnu við fleiri aðila, þeirra á meðal belgískt fyrirtæki sem heitir Flanders Drive. Á teikningunni á eftir þessari frétt sést hvernig þetta virkar.

 Hleðsluplötunni má t.d. koma fyrir í innkeyrslunni þar sem bílnum er lagt á kvöldin. Þegar straumi er hleypt á plötuna skapast segulsvið en um það flyst svo raforkan inn í móttökuplötu í bílnum og þaðan inn á rafgeyma hans. Orkan flyst í bílinn sem riðstraumur sem breytist í jafnstraum í bílnum sem síðan hleðst upp í geymunum. Tómar rafhlöður af þeirri stærð sem fyrirfinnast í nýja Volvo C30 rafbílnum (24 kWst.) eru furðu fljótar að verða fullhlaðnar með þessum búnaði eða einungis klst og 20 mínútur.

Johan Konnberg verkefnisstjóri rafbíla hjá Volvo í Gautaborg segir við Auto Motor & Sport að tilgangurinn með þessum tilraunum og rannsóknum tengist því að gera notkun rafbíla eins sveigjanlega og auðvelda og notkun venjulegra bíla er.

 Margir fleiri aðilar standa nú í samskonar tilraunum og Volvo og Flander´s Drive en enginn hefur þó enn komið með fullburða lausn. Tilraunir Volvo/Flanders virðast þó einna lengst komnar. Johan Konnberg segir að það sé mikilvæg forsenda skjóts árangurs á þessu sviði að menn komi sér saman um ákveðinn staðal fyrir þráðlausa endurhleðslu. En þrátt fyrir að enginn finnist enn staðallinn sé nauðsynlegt að stunda rannsóknir og tilraunir og safna þekkingu. Þessar rannsóknir snúist nefnilega ekki bara um endurhleðslu heldur sú þær líka „framtíðarmúsík“ sem gerir rafbílum mögulegt að taka upp straum frá t.d. rafkapli sem lagður er í sjálfan veginn og gerir það mögulegt að aka hiklaust áfram án þess að þurfa að stansa og endurhlaða sí og æ.

http://www.fib.is/myndir/Volvo-hledsla.jpg