Tímasetningin röng og mögulega er kílómetragjaldið of hátt

Bann við nýskráningum bensín- og dísilbíla tekur í gildi hér á landi 2030. Frá og með þeim tíma eiga allir nýir bílar, fólksbílar, að vera knúnir rafmagni, vetni, metani og eða öðrum orkugjafa sem ekki er sóttur í jörðu. Þetta er sjálfsagt með mestu breytingum í loftslagsaðgerðum stjórnvalda sem almenningur mun finna fyrir. Það voru teknar upp ívilnanir til að greiða fyrir kaupum almennings á rafbílum og fyrir vikið lækkuðu þeir töluvert í verði. Síðan hefur eitt og annað verið gert af hálfu stjórnvalda sem hefur orðið þess valdandi að verð á rafbílum hefur hækkað.

Fyrstu vikur þessa árs hefur sala á rafbílum dregist saman og er samdráttur í nýskráningum fólksbifreiða yfir 50% miðað við sama tíma á síðasta ári. Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, sem var gestur í morgunþætti Rásar 1 í morgun rekur samdráttinn til hærra verðs á rafbílum af breyttu ívilnunarkerfi stjórnvalda.

Ennþá bjartsýnn – blikur samt á lofti

,,Ér er ennþá bjartsýnn á að rafbílar muni taka yfir, þetta sé bara spurning um tíma. Það er hins vegar núna um stundir sem blikur eru á lofti. Hægst hefur umtalsvert á nýskráningum rafbíla það sem af er þessu ári. Við náðum ákveðnum árangri í fyrra en þá voru nýskráningar í rafbílum í heild um 50% sem er það besta sem við höfum náð. Undanfarin tvö áramót hafa verið innleiddar aðgerðir sem beinlínis vinna gegn orkuskiptunum að mínu mati. Ég hef líst þessum sem nokkrum aðgerðum og núna um síðustu áramót bættust nokkrar við og samtals eru þær orðnar átta talsins. Árið fór að vísu nokkuð vel af stað, sérstaklega fyrstu tvær vikurnar. Þetta er venjan í bílabransanum en þá eru nýskráningar að koma fram af bílum sem seldir eru í desember. Hins vegar í þrðju viku ársins dettur botninn úr þessu. Síðan þá hefur nýskráningum fækkað jafnt og þétt til dagsins í dag,” sagði Egill í morgunþættinum á Rás 1.

Egill bendir einnig bendir hann á hátt vaxtarstig, verðbólgu og ennþá hefur ekki verið gengið frá nýjum kjarasamningum. Allt þetta hafi áhrif á bílamarkaðinn í heild sinni.

Mikill samdráttur

,,Ef maður skoðar hins vegar söluna á þessum hefðbundnu bílum, bensín- og dísilbílum, er samdrátturinn í þeim um 40%. Aftur á móti þegar bílasalan í febrúar er skoðuð á hreinum rafbílum er samdrátturinn yfir 80%. Heilminginn af samdrættinum má rekja til efnahagsatriða en umfram samdráttinn í rafbílasölunni er algjörlega út af þessum samanlögðu aðgerðum sem stjórnvöld hafa gripið til.

Egill sagði að um þar síðustu áramót var sett á lágmarksvörugjald á rafbíla sem nam um 5%. Þar áður báru þessir bílar engin vörugjöld. Þá var minnkaður gjaldamunurinn á milli rafbíla og jarðefnaeldsneytisbíla. Þetta hafi verið undarleg aðgerð í ljósi markmiða í orkiskiptum að mati Egils.

Bentum á að stjórnvöld væru á rangri leið

,,Við í stjórn Bílgreinasambandsins, þar sem ég á sæti, bentum strax á það í október 2022 að þarna væru stjórnvöld á rangri leið. Hægt væri að ná sömu tekjumarkmiðum með því að vinna þetta aðeins öðru vísi. Nota vörugjaldakerfið sem væri í raun mjög gott á Íslandi. Það var ekki gert, því miður. Bifreiðagjöld eru líka hækkuð um þessi sömu áramót. Úrvinnslugjald hækkað á rafhlöður rafbíla og svo núna um síðustu áramót er virðisaukaskattsívilnunin felld niður. Ílvilnun á útleigu rafbíla hjá bílaleigum er einng felld niður og virðisaukaskattur leggst á að fullu á útleiguna. Innleitt er einnig nýtt kerfi í gegnum Orkusjóð um hvernig hægt er að sækja um styrk fyrir rafbílakaup sem er í raun flókið kerfi.Þar er veittur styrkur úr Orkusjóði þegar keyptur er rafbíll sem kostar 10 milljónir eða minna. Rothöggið er síðan kílómetragjaldið og allt á botninn hvolft er þetta að stöðva orkuskiptin.”

Hvað kílómetragjaldið áhrærir var Egill inntur eftir því hvort það væri ekki sjálfsagður hlutur að rafbílaeigendur borgi eitthvað til ríkissjóðs eins og eigendur bensín- og dísilbíla gera í gegnum kaup á eldsneyti.

,,Algjörlega. Við mæltum með því á sínum tíma að einhverskonar kílómetragald yrði tekið upp. Þetta er hins vegar spurning um tímasetninguna. Þegar að við stöndum í svona miklum umbreytingum, eins orkuskiptin eru í vegasamgöngum, þá þarf að ná ákveðnu augnabliki til að þau stöðvist ekki. Þetta var gert of snemma og eingöngu á raf- og tengiltvinnbíla. Tímasetningin var röng og mögulega er kílómetragjaldið of hátt,” sagði Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar.