Toyota í USA greiðir 1,2 milljarða dollara dómssátt

Toyota Motor Corp í Bandaríkjunum hefur samþykkt að greiða hvorki meira né minna en 1,2 milljarða í dómssátt til að komast hjá frekari sakamálarannsókn og málaferlum fyrir að hafa um nokkurn tíma ítrekað logið til um alvarlega öryggisgalla í  bílum sínum. Þetta er hæsta sektargreiðsla sem bílafyrirtæki hefur nokkru sinni verið gert að greiða. Gallarnir ollu því m.a. að bílar gátu átt það til að gefa sér bensínið í botn án þess að ökumaður fengið við neitt ráðið. Ekki er ólíklegt talið að dómsáttin gefi visst fordæmi í ekki ósvipuðu máli gagnvart galla í kveikilás bíla frá General Motors. Sá galli uppgötvaðist fyrir 13 árum en fyrst nú er GM að innkalla 1,6 milljón bíla vegna hans.

"Von mín er sú að dómssáttin við Toyota verði fyrirmynd að því hvernig mál af þessu tagi verða afgreidd framvegis," sagði saksóknarinn Eric Holder á blaðamannafundi í gær þar sem hann og saksóknarinn Preet Bharara (t.h. á mynd) kynntu dómssáttina. Fjölmiðlar beggja vegna Atlantsála greina frá þessu máli í gær og dag. Niðurstaðan þykir stórsigur fyrir neytendasamtök og lögmenn í Bandaríkjunum sem sérhæfa sig í neytenda- og öryggismálum fyrir hönd almennra neytenda. Málið var upphaflega höfðað sem sakamál og er hið fyrsta sinnar tegundar síðan fyrstu lögin um öryggi bíla voru sett í Bandaríkjunum fyrir 48 árum. Niðurstaðan þykir marka þáttaskil og málið vera álitshnekkir fyrir Toyota. Akio Toyoda stjórnarformaður Toyota sagði við blaðamenn í Tokyo að innan fyrirtækisins hafi menn undanfarið unnið að því hörðum höndum að breyta hugsunarhættinum og vinnunbrögðunum. Nú yrði snúið aftur til baka til hinnar gömlu hugmyndafræði Toyota sem var sú að setja ávallt viðskiptavinina í fyrsta sætið. Og yfirlögfræðingur Toyota í Bandaríkjunum tekur í sama streng í Reutersfrétt og segir að nú verði slæmum kafla í sögu fyrirtækisins lokað og nýir og betri hættir teknir upp.