Tryggingafélög í sérskoðun hjá FME

Ríkisútvarpið greinir frá því í frétt að Fjármálaeftirlitið skoði nú sérstaklega viðskiptahætti „nokkurra stærstu tryggingafélaga landsins“ eins og það er orðað. Vísbendingar séu um að félögin brjóti gegn lögum, misnoti aðstöðu sína og raski eðlilegri samkeppni á markaði með undirboðum. Eftirlitinu hafi borist ábending um þetta í október sl.

RÚV segir að meðal þess sem eftirlitið skoði nú sé meintir óeðlilegir viðskiptahættir sem felist í því að félögin hindri kerfisbundið að fólk skipti um tryggingafélag. Þeim sem segi upp tryggingum sínum og vilji færa sig anað, séu boðnir sérstakir afslættir og sérkjör sem oft séu betri en auglýstir skilmálar.

FÍB hefur um áratugaskeið kallað eftir eðlilegri verðlagningu vátryggingaiðgjalda og eðlilegum tengslum milli iðgjalda og áhættu. Það þýðir á mannamáli að góðir vel þjálfaðir ökumenn skuli njóta farsældar sinnar í akstri í lægri iðgjöldum í stað þess að þeir séu í raun rukkaðir fyrir mistök annarra. Gamla bónuskerfið sem varð til upp úr miðbiki síðustu aldar, var reyndar upphaflega hugsað þannig, en gekk sér til húðar vegna þess að allir fengu  (amk. að nafninu til) fullan bónus án tillits til aksturssögu.  Bónusinn hætti að vera bónus og breyttist í almenna verðskrá.

Þegar svo var komið fyrir gamla bónuskerfinu hafði FÍB frumkvæði að stofnun nýs tryggingafélags, Hagtryggingar, sem hafði það að leiðarljósi að iðgjöld væru ákveðin út frá aksturssögu tryggingataka. Þeir sem sjaldan eða aldrei höfðu lent í óhöppum og slysum í umferðinni nutu þess í lægri iðgjöldum. Gagnstætt því sem ýmsir trúa, gekk Hagtrygging ágætlega lengst af. Endalok félagsins fólust ekki í því að félagið yrði gjaldþrota, heldur var það tryggingfélag sem keypti það og sameinaði síðan rekstur þess og eigin rekstur.

FÍB hefur alla tíð talað fyrir iðgjöldum sem séu verðlögð út frá áhættu. Hið gleðilega virðist hafa gerst að þessi rödd hafi loks  náð eyrum yfirvalda því að Fjármálaeftirlitið lýsti því yfir rúmu ári að afslættir frá iðgjöldum skuli ákvarðast út frá áhættu og tryggingasögu tryggingataka en ekki  einhverskonar geðþótta.