Um áramót

Eldgos og hamfarir

Í upphafi nýs árs er viðeigandi að líta yfir árið sem var að líða. Fjórða Reykjaneseldgosið á þremur árum kom upp með miklum krafti við Sundhnúkagíga, norður af Grindavík, að kvöldi mánudagsins 18. desember. Gosið leysti úr læðingi mikið kvikuflæði en stóð stutt og var lokið 21. desember. Þetta gerðist í kjölfar mikilla og langvarandi jarðskjálfta og kvikuinnskots sem m.a. hafði í för með sér að sprungur opnuðust í Grindavík.

Grindvíkingar þurftu að rýma bæinn sinn 10. nóvember með skömmum fyrirvara með tilheyrandi erfiðleikum, áföllum og óvissu. Land heldur áfram að rísa við Svartsengi þannig að áfram eru líkur á öðru kvikuhlaupi og mögulegu eldgosi. Hugur okkar er hjá Grindvíkingum nú sem fyrr og einnig viðbragðsaðilum og vísindamönnum sem vaka yfir svæðinu.

Landsmenn hafa upplifað mikla óvissu í efnahagsmálum á árinu. Verðbólga er í hæstu hæðum og heimili og fyrirtæki hafa þurft að taka á sig miklar verðhækkanir og okurvexti. Þessu til viðbótar samþykkti Alþingi lög fyrir jólafrí um verulegar skattahækkanir á eign og rekstur bifreiða árið 2024.

Skattahækkanir

Kolefnisgjald á eldsneyti, olíugjald og vörugjöld á bensín hækka um 3,5%. Grunngjald bifreiðagjalds hækkar um tæplega 10.000 krónur yfir árið eða um 32,6%. Aðrir hlutar bifreiðagjaldsins, sem leggjast á meira mengandi bíla, hækka um 3,5%. Auk hækkunar eldsneytisgjalda vegna verðlagsþróunar eru stjórnvöld með áform uppi um að hækka kolefnisgjald á bensín og dísilolíu um 3,1 milljarð króna árið 2024.

Ný lög um kílómetragjald á raf-, vetnis- og tengiltvinnbíla komu til framkvæmda 1. janúar 2024. Eigendur raf- og vetnisknúinna fólksbíla greiða 6 krónur fyrir hvern ekinn kílómetra og á tengiltvinnbíla leggjast 2 krónur á hvern ekinn kílómetra. Greitt er mánaðarlega. Bíleigandi er greiðandi nema þegar um eigna- eða fjármögnunarleigu er að ræða eins og í tilfelli rekstrarleigubíla en þá er umráðamaður greiðandi gjaldsins. Upphæð kílómetragjalds miðast við meðalakstur en meðalakstur er reiknaður út frá síðustu tveimur skráningum á kílómetrastöðu. Skylt er að skrá stöðu kílómetramælis fyrir 20. janúar 2024 samkvæmt upplýsingum frá Skattinum.

Skattaívilnanir vegna rafbílakaupa upp á 1.320 þúsund krónur féllu niður um áramótin en í staðin kemur tímabundinn allt að 900 þúsund króna styrkur sem einstaklingar geta sótt um vegna kaupa á hreinorkubílum sem kosta minna en 10 milljón krónur frá söluaðila út árið 2024.

FÍB hefur gagnrýnt vinnubrögð stjórnvalda við kerfisbreytingarnar enda enn uppi óvissa um ýmsa þætti framkvæmdarinnar. Lítið samráð var haft við aðila innan bílgreinarinnar eða fulltrúa FÍB, hagsmuna- og neytendasamtaka bíleigenda með um 20.000 félaga, um nýju skatta- og kerfisbreytingarnar sem varða verulega hagsmuni fyrir neytendur. Svona vinnubrögð falla ekki undir vandaða og lýðræðislega stjórnsýslu.

Tillaga FÍB um kílómetragjald

FÍB lagði snemma á síðasta ári fram tillögur um að kílómetragjald kæmi í stað ríkjandi innheimtu ríkisins af notkun ökutækja. Upphæð gjaldsins færi eftir mengun (losun koltvísýrings) og heildarþyngd ökutækis. Lagt var til að skattar á bensin og dísil féllu niður, svo og bifreiðagjald. Samhliða þessu lagði FÍB fram formúlur og útreikninga sem gerðu stjórnvöldum kleift að efla ríkjandi tekjustofna af notkun ökutækja.

Í tillögum FÍB endurspeglaði kílómetragjaldið umhverfisáhrif viðkomandi ökutækis og álag þess á vegakerfið. Eigendur bíla sem ganga fyrir rafmagni taka virkan þátt í kostnaði við vegakerfið, en halda eftir sem áður hvatanum til notkunar hreinorkugjafa vegna lægra gjalds.

Kílómetragjaldi FÍB var ætlað að mæta fjölmörgum markmiðum sem ekki hafa náðst á síðustu árum vegna notkunar ökutækja. Innan tillagna FÍB var einnig gert ráð fyrir að mæta tekjuþörf ríkissjóðs vegna áforma um innheimtu vegatolla af notkun ökutækja.

Kílómetragjald kemur í veg fyrir þörfina á dýrri og umdeildri uppsetningu tollahliða og innheimtu í jarðgöngum. Innheimtukostnaður kílómetragjalds nemur aðeins broti af kostnaði við þau áform. Kílómetragjald stuðlar að ákveðnum jöfnuði í gjaldtöku af umferðinni og eyðir þörf fyrir sértæka og óhagkvæma innheimtu af þeim sem nota ein umferðarmannvirki umfram önnur.

Reikniformúla FÍB skapar mikinn sveigjanleika til að ná fram markmiðum tekjuöflunar ríkissjóðs í samræmi við þróun bílaflotans næstu ár og áratugi. Bíleigendur fá betri tilfinningu fyrir aksturskostnaði.

FÍB kynnti tillögur sínar og útfærslur fyrir fulltrúum stjórnvalda á nokkrum fundum, bauð fram aðstoð og afnot ríkisins, án endurgjalds, af allri vinnu og úrlausnum félagsins við hugmyndavinnuna.

Stjórnvöld kusu að fara með sína nálgun í aðra átt. Kílómetragjaldið sem innheimta á af raf- og tengiltvinnbílum í ár er óháð þyngd eða orkuþörf ökutækja. Það er sama gjald á lítinn léttan rafbíl með enga dráttargetu og á allt að 3,5 tonna bíl sem draga má yfir 3,5 tonna eftirvagn. FÍB hefur sýnt fram á að ríkið muni í sumum tilvikum taka hærri skatta af eigendum lítilla rafbíla heldur en af eigendum minni eldsneytisbíla. Gjaldið mismunar einnig eigendum tengiltvinnbíla út frá akstursdrægni.

Stjórnvöld fyrirhuga er að fara af stað með kílómetragjald á alla bíla á árinu 2025. Nú sem fyrr óskar FÍB eftir samráði við hagsmunaaðila um sanngjarna útfærslu þeirra kerfisbreytinga.

FÍB í upphafi nýs árs

Árið 2023 var jákvætt fyrir FÍB sem félag. Aðild að félaginu eiga nú um 20.000 fjölskyldur. Þjónustusvæði hafa stækkað og þjónustuframboð aukist. FÍB hefur sterka rödd í samfélaginu og leitast við að skilja væntingar og þarfir félagsmanna. FÍB býður upp á fjölbreytta þjónustu og tryggir gæði og aukna kosti félagsaðildar á hverjum tíma. Félagið vill stuðla að auknum valkostum og frelsi í samgöngum og tryggja hreyfanleika með hagsýni, umhverfisvitund og öryggi vegfarenda að leiðarljósi.

Félagsgjald FÍB hækkaði um áramótin um 2,4%, fór úr 9,840 krónum í 10,080 krónur. Þessi 240 króna hækkun um áramótin er langt undir þeim verðhækkunum sem átt hafa sér stað í samfélaginu á tímum mikillar verðbólgu og vaxtahækkana. Ákvörðun stjórnar FÍB um félagsgjaldið tók mið af hvatningu aðila vinnumarkaðarins um að stilla verðbreytingum í hóf. Markmiðið er að halda áfram settu marki um fjölgun félaga og ná þannig að bjóða félagsmönnum enn betri og öflugri þjónustu.

Megi nýtt ár færa okkur frið og hamingju.