Umferð á Hringvegi jókst um tæp 2% í apríl

Umferðin á Hringvegi í nýliðnum apríl jókst um 1,8 prósent sem er heldur minni aukning en mánuðina þar á undan. Eigi að síður hefur aldrei mælst meiri umferð á Hringveginum í aprílmánuði. Frá áramótum hefur umferðin aukist um nærri sjö prósent sem er mikil aukning að því er fram kemur í tölum frá Vegagerðinni.

Eftir mikla aukningu umferðar, þrjá fyrstu mánuði ársins, reyndist aukningin í apríl ,,aðeins“ 1,8%, miðað við sama mánuð á síðasta ári fyrir 16 lykilteljara á Hringvegi. Umferðin jókst einungis í tveimur svæðum eða Suðurlandi og í grennd við höfuðborgarsvæðið, en dróst talsvert saman á öðrum svæðum.

Þessi aukning dugði þó til að setja nýtt umferðarmet í apríl mánuði fyrir umrædda lykilteljara. Alls fóru daglega um 92 þúsund ökutæki um lykilsniðin 16 miðað við rétt rúmlega 90 þúsund á síðasta ári. Rétt að benda á að sama ökutæki getur mælst í fleiri en einu sniði.

8,3% aukning mældist yfir teljara við höfuðborgarsvæðið en umferðin dróst hins vegar saman um heil 17% á Norðurlandi, miðað við sama mánuð á síðasta ári. Ein skýring á þessum mikla samdrætti á Vesturlandi til Austurlands kann að vera sú að færðin var töluvert verri í nýliðnum apríl miðað við sama mánuð á síðasta ári á þessum svæðum.

Núna hefur umferðin aukist um 6,6% frá áramótum, miðað við sama tímabil á síðasta ári. Þó að þetta sé talsverð aukning hafði umferðin aukist tvöfalt meira á sama tíma á síðasta ári. Það sem af er ári er mest ekið á föstudögum en minnst á laugardögum. Umferð hefur aukist mest á sunnudögum en minnst á fimmtudögum.