Varúð! Föstudagsumferð!

http://www.fib.is/myndir/Car-crash-01.jpg


Í enda vinnuvikunnar er fólk uppspennt og stressað og þegar það svo í ofanálag hellir sér út í umferðina til að komast af vinnustaðnum og heim með viðkomu í nokkrum verslunum til að gera helgarinnkaupin er fjandinn laus ef marka má nýja athugun sem dekkjaframleiðandinn Continental hefur gert í Bretlandi og sem sagt er frá í Der Spiegel í morgun. Langmesta hættan á slysum og óhöppum í umferðinni er milli klukkan fjögur og fimm síðdegis að því er blaðið greinir frá.

Af þessum ástæðum ættu allir sem mögulega geta, að hreyfa ekki bílinn síðdegis á föstudögum því að hætta á því að lenda í umferðarslysi eða óhappi er margföld á við aðra tíma vikunnar.

Rannsókn Continental á 6500 umferðarslysum leiðir í ljós kom að 35 prósent fleiri umferðarslys í Bretlandi verða milli kl. fjögur og fimm á föstudögum heldur en í umferðarþunganum milli kl. átta og níu á föstudagsmorgnum og um helmingi fleiri en milli kl. níu og tíu. Þetta sýnir að föstudagssíðdegisumferðin er lang háskalegust og sýnir að mati þeirra sem könnunina gerðu að fólk ætti að forðast í lengstu lög að vera í umferðinni á þessum umrædda tíma.

En hættan er mismikil eftir árstímum og Der Spiegle segir að einmitt nú sé hættulegasti tíminn þar sem bæði er skammdegið að nálgast hápunkt og í ofanálag hætta á hálku. Rannsóknin staðfestir þetta og sýnir svart á hvítu að í nóvember sl. hafi orðið 10% fleiri umferðarslys heldur en í október sl. í Bretlandi.

Ekki er vitað til að rannsókn af þessu tagi hafi verið gerð hér á landi en miðað við hvernig föstudagssíðdegisumferðin er stundum á höfuðborgarsvæðinu kæmi ekki á óvart að niðurstöðurnar yrðu ekki ólíkar þeim sem hér hefur verið greint frá.