Veljið frekar dísilbílana

http://www.fib.is/myndir/TDI.jpg

70 allra nýrra bíla í Noregi eru dísilbílar. Hlutfall dísilbílanna í sölu nýrra bíla er eitt hið hæsta í Evrópu. Norska hollustuverndin – Statens forurensningstilsyn (SFT) hvetur almenning til að velja fremur dísilbíl en bensínbíl þegar hugað er að kaupum á nýjum bíl.

Frá þessu er greint í Aftenposten sem vitnar til nýrra samanburðarrannsókna á útblæstri dísil- og bensínbíla og kostnaðarmati á hvorutveggja. Bensínbílarnir gefa frá sér um 25% meira af CO2 en dísilbílarnir sem á hinn bóginn gefa frá sér sótagnir og nítrógendioxíð (NO2).

Norska stofnunin hefur borið saman annarsvegar sótið og níturxíðið frá dísilvélunum og hins vegar 25% meira magn CO2 og telur það síðarnefnda verri kost. Því hvetur hún almenning til að fá sér frekar dísilbíla en bensínbíla. Hans Aasen deildarstjóri í SFT segir við Aftenposten að kostnaðarútreikningar sýni að dísilbílar séu því eftir allt saman ódýrari kostur fyrir umhverfið og heilsu fólks en bensínbílarnir.