Vinsældalisti bílaþjófanna

http://www.fib.is/myndir/Carwatch.jpg

Margir bíleigendur hér á landi hafa lent í þeim óskemmtilegheitum að koma að bílum sínum með brotna rúðu, opna hurð og verðmæti sem í bílnum voru eru horfin, eða þá að koma að þeim stað þar sem bíllinn var skilinn eftir og sjá að hann er þar ekki lengur.

Norskt tryggingafélag hefur tekið saman lista yfir bíla sem brotist hefur verið inn í og borið saman við fjölda skráðra bíla af viðkomandi tegundum og gerðum. Úr þessu er til orðinn eins konar vinsældalisti yfir þá 15 bíla sem hættast er við að verða fyrir barðinu á þjófum í Noregi. Talsmaður tryggingafélagsins segir við dagblaðið verdens Gang að það séu einkum eldri bílar sem er stolið, enda eru þjófnaðarvarnarkerfi nýrri bíla oftast það öflug að þjófar ráða illa við að koma nýrri bílunum í gang eftir að inn í þá er komið.

En innbrotum er þrátt fyrir þetta að fjölga og oftar en ekki er tilgangurinn með þeim sá að stela úr þeim verðmætum. Það ekki síst GPS leiðsögutæki sem þjófarnir eru að sækjast eftir. Annað sem þjófar sækjast eftir eru DVD spilarar fyrir börnin í aftursætinu. Það er því góð regla að skilja aldrei nein verðmæti eftir í bílnum þegar hann er yfirgefinn og allra síst að láta þau liggja í sætum fyrir allra augum.

En Það er eins og sumar bílgerðir laði innbrotsfólk meir að sér en aðrar, hvernig sem á því stendur. Kannski sumir bílaþjófar séu sérhæfðir í einstökum tegundum þegar um nytjastuldi er að ræða. Það er einnig vitað að sumir bílar voru og eru auðveldari en aðrir fyrir þjófa þegar kemur að því að koma þeim í gang og aka brott. En þegar um það er að ræða að stela verðmætum úr bílum þá virðist sem norskir þjófar telji að verðmæta sé fremur að vænta í sumum tegundum og gerðum bíla en öðrum. Hver svo sem skýringin kann að vera  þá er listi hins norska tryggingafélags forvitnilegur og hann er svona;

1) Jeep Cherokee 6 cyl
2) Audi 100 2.3
3) Audi 80 2.0 E
4) Mercedes CLK 200/Kompressor
5) Jeep Cherokee Sport /TD
6) Ford Escort 1.8
7) Audi 80 1.8 S
8) VW Golf III 1.9 TDI
9) VW Golf II 1.8 CL/GL
10) Mercedes V 220/230
11) Mercedes SLK 200
12) VW Golf III SDK/TDK
13) BMW 3251
14) VW Golf II 1.6 CL/GL
15) Audi A6 1.8 T/2.0