Volkswagen núna í þremur efstu sætum

http://www.fib.is/myndir/CarlosSainz.jpg
Carlos Sainz.

Nú stendur yfir keppni í fjórðu lotu Dakarrallsins en leiðin liggur millli staðanna El Rachidia og Ouarzazate í Marokkó. Sérleiðin í þessum áfanga er bæði löng og erfið. Hún er 405 kílómetrar en samtals er áfanginn allur 679 kílómetrar.

Línur eru byrjaðar að skýrast í keppninni og sauðirnir teknir að skiljast frá höfrunum ef grípa má til biblíulíkingar. Þegar er orðið ljóst að Volkswagenliðið er verulega sterkt í ár og talsverður titringur orðinn í herbúðum Mitsubishi sem ráðið hefur lögum og lofum í efstu sætunum mörg undanfarin ár.

Eftir keppni í þriðja áfanganum í gær voru Volkswagenbílar í þremur efstu sætunum.  Efstur var Carlos Sainz, annar var Giniel De Villiers og í því þriðja Carlos Sousa. Í því fjórða var sigurvegarinn frá því í fyrra, Stephane Peterhansel á Mitsubishi, Mark Miller á Volkswagen kom svo inn í fimmta sætið en í þremur næstu sætum þar á eftir voru þeir Hiroshi Masouka, Nani Roma og Luc Alphand, allir á Mitsubishi.

Þrír efstu þessa stundina í flokki mótorhjóla eru Isidre Esteve Pujol, Marc Coma og David Casteu en allir aka þeir KTM hjólum.