VW gangsetur Dresden bílaverksmiðjuna á ný

Volkswagen Group ætlar að gangsetja á ný samsetningarverksmiðju sína í Dresden sem áður framleiddi lúxusbílana VW Phaeton og Bentley og framleiða þar hinn nýja rafdrifna VW Golf. Verksmiðjan sem er mjög sérstök, hefur verið nýtt sem safn undanfarin ár eða frá því 14 ára framleiðslu lúxusvagnsins Phaeton og Bentley var hætt.

   Framleiðslan fyrirhugaða á hinum nýja, aflmikla og langdræga VW Golf mun að sögn Automotive News hefjast í apríl á næsta ári í ,,gegnsæju“ verksmiðjunni, eins og byggingin er kölluð. Þar munu hvítklætt tæknifólk setja saman bílana á stífbónuðum parkettgólfunum. En Dresden verður ekki eini framleiðslustaður þessa nýja rafbíls sem nú er til sýnis í Los Angeles, því hann verður einnig framleiddur í höfuðstöðvunum í Wolfsburg.

   Lúxusvagninn fyrrnefndi; VW Phaeton var gæluverkefni þáverandi stjórnarformanns VW; Ferdinand Piech. Mjög var vandað til bílsins frá upphafi. Hönnun hans hafði kostað um milljarð evra þegar framleiðslan hófst árið 2002, Bíllinn átti að höfða til sama kaupendahóps og BMW 7 línan og söluáætlanir miðuðust við 20 þúsund bíla ársframleiðslu og -sölu. Það markmið náðist aldrei og var framleiðslunni hætt árið 2012. Talið er að tap VW hafi numið að meðaltali 28 þúsund evrum á hvern einasta selda Phaeton bíl. Phaeton er þannig talin ein dýrustu ,,mistök“ evrópskrar bílasögu seinni ára.

   Volkswagen afhjúpaði hinn ný-uppfærða rafmagns-Golf á bílasýningunni í Los Angeles í sl. viku. Hann er öflugri en fyrirrennarinn og 50% langdrægari. (200 km í stað 133). Rafgeymar hans eru 36 kWst. Í stað 24 kWst. eins og í eldri gerðinni.