Waymo - sjálfkeyrslumerki Google

Ekki er langt síðan Google lagði á hilluna áætlanir um eigin framleiðslu sjálfakandi bíla en ætlaði að halda áfram þróun hug- og vélbúnaðar fyrir sjálfakandi bíla almennt. Nú berast fregnir frá Google um stóraukna áherslu á þróun og framleiðslu slíks búnaðar og að eigin bílaframleiðsla sé alls ekkert útilokuð.

Google hefur nefnilega stofnað sérstakt fyrirtæki í Sílíkondal í Kaliforníu um verkefnið. Fyrirtækið ber nafnið Waymo og er dótturfyrirtæki Alphabet sem rekur netleitarvélar Google. Með Waymo er allt sem tengist sjálfkeyrslutækninni komið undir einn hatt og eina yfirstjórn. Waymo skal m.a. eiga í beinni samvinnu við bílaframleiðendur um þróun og framleiðslu tækni- og hugbúnaðar fyrir sjálfakandi bíla og hverskonar kerfa fyrir sjálfakandi farartæki, hvort heldur sem þau flytja fólk eða varning.  Nýráðinn forstjóri Waymo heitir John Krafcik sem síðast starfaði sem forstjóri Hyundai í N. Ameríku en gegndi þar áður stjórnunarstöðum hjá Ford Motor Co.