Dagljósin og ES-tilskipunin frá 2011

Árið 2011 gaf ESB út tilskipun um dagljós bíla sem tæpast er hægt að segja að hafi verið til bóta í löndum þar sem um árabíl hafði verið skylt að aka með ökuljósum allan sólarhringinn. Samkvæmt tilskipuninni frá 2011 skal dagljósabúnaður bíla kveikja sjálfvirkt á sérstökum ökuljósum framan á bílnum en ekki á ljósum aftan á bílnum eins og áður var.

Mjög hefur verið kvartað undan þessu undanfarið, ekki bara hér á landi heldur líka og ekki síður í grannlöndunum.  Það er vegna þess að nýir og nýlegir bílar sem eru með dagljósabúnaði í samræmi við tilskipunina frá 2011 eru illa eða alls ekki sýnilegir í myrkri, þoku eða skafrenningi vegna þess að þeir eru ljóslausir að aftanverðu. Þeir sem á eftir koma geta því illa eða ekki séð þá fyrr en jafnvel of seint. Ökumenn ljóslausu bílanna eru oftast grunlausir um þetta og vita ekki betur en allt sé í lagi hjá þeim.

Fjallað var um þetta mál í síðasta tölublaði FÍB blaðsins og afskiptaleysi yfirvalda af því gagnrýnt vegna þess að samkvæmt fullgildum íslenskum lögum skulu ökuljós bíla að framan og aftan vera kveikt í akstri alla tíma sólarhringsins. Systursamtök FÍB í nágrannalöndunum hafa einnig vakið athygli á þessu og og nú hefur danska ríkisstjórnin brugðist við og krafist þess að ESB breyti tilskipuninni og innleiði á ný ljósaskyldu á bíla í akstri að aftan sem framan.

Danska þingið ræddi málið í fyrirspurnatíma skömmu fyrir jól og hét samgönguráðherrann Hans Chr. Schmidt því þar að krefja yfirnefnd ESB um að gera kveikt afturljós strax að skyldu Ráðherrann lýsti sig eindregið þeirrar skoðunar að akstur með slökkt afturljós væri afleit hugmynd sem aldrei hefði átt að verða að veruleika. Hann sagði nýjar reglur um evrópska gerðarviðurkenningu bíla sem taka eiga gildi 30 júlí nk. einfaldlega ekki nóg. Samkvæmt þeim skulu allir nýir fólks- og sendibílar vera með dagljósabúnaði sem kveikir á dagljósum bæði að framan og aftan til að geta hlotið gerðarviðurkenningu frá og með 30. júlí nk.

Tilskipunin frá 2011

Tilskipunin undarlega um dagljósin frá 2011 er til orðin í einhverskonar samvinnu Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins um ýmis atriði sem bílar þurfa að uppfylla til að geta öðlast gerðarviðurkenningu. Sú stofnun SÞ sem um slík mál fjallar nefnist ECE. Ljósatilskipunin verður að skoðast sem einskonar málamiðlun milli öryggissjónarmiða og orksusparnaðar. Það kostar nefnilega talsverðan auka eldsneytisbruna að framleiða rafmagnið fyrir bílljósin og sparnaðarhugsun liggur þannig aðallega að baki því að kveikja ekki á afturljósunum en láta einungis sérstök orkusparnaðarljós lýsa að framan. Þar sem fjölmörg Evrópusambandsríki hafa ekki sett lög um dagljós á bílum má segja að þar sem 2011 tilskipunin fékk lagagildi hafi aukið umferðaröryggið ínna  ESB að meðaltali, þótt það hafi minnkað í dagljósaskylduríkjunum við vaxandi fjölda afturljósalausra bíl í myrkri og dimmviðrum. Það sérkennilega er nefnilega að 2011 tilskipunin bannar öll önnur ljós en dagljósin að framan þegar dagsbirtu nýtur. Það er réttlætt með því að bremsuljósin sjáist verr í dagsbirtunni ef afturljósin eru kveikt.