FÍB hefur ítrekað gagnrýnt tryggingarfélögin fyrir leynd yfir verði og gríðarlega há iðgjöld

Neytendastofa er nú með til skoðunar nokkrar tilkynningar vegna tilboðs tryggingafélagsins TM síðastliðinn mánudag. Framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðareigenda, Runólfur Ólafsson, segir tilboðið hafa verið á skjön við neytendalög og gagnrýnir tryggingarfélögin fyrir ofurhátt verðlag.

FÍB sendi í vikunni inn erindi til Neytendastofu þar sem vakin er athygli stofnunarinnar á því að afsláttartilboð TM mánudaginn 29. nóvember brjóti gegn lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Um var að ræða svokallað „cyber monday“ tilboð um 30% afslátt í eitt ár af tryggingaiðgjöldum nýrra viðskiptavina. Tilboðið stóð bara í einn dag og gilti aðeins fyrir viðskiptavini annarra tryggingafélaga en TM.

Í 11. grein laga nr. 57/2005 segir að við útsölu eða aðra sölu, þar sem selt er á lækkuðu verði, megi því aðeins auglýsa eða tilkynna að um raunverulega verðlækkun sé að ræða. Þess skuli gætt að greinilegt sé með verðmerkingum hvert hið upprunalega verð vörunnar var.

Matthildur Sveinsdóttir, sviðstjóri á neytendaréttarsviði Neytendastofu, segir í samtali á visir.is að þau hafa fengið nokkrar tilkynningar um tilboð TM þennan umrædda dag, til að mynda frá neytendum, sem og Neytendasamtökunum.

„Við höfum ekki áður fengið kvartanir eða ábendingar út af tryggingafélögum en við höfum svo sem fengið ýmsar ábendingar út af tilboðum á þessum dögum. Þannig þetta er bara til skoðunar hjá okkur, hvort það sé tilefni til einhverra frekari aðgerða,“ segir Matthildur.

Hún bendir á að samkvæmt lögum beri fyrirtækjum að sýna að um raunverulega verðlækkun sé að ræða.

„Það er jafnframt skylda að kynna fyrir neytendum bæði fyrra verðið og afsláttinn, eða fyrra verðið og tilboðsverðið, svo að neytendur geti með góðum hætti áttað sig á því hversu mikil verðlækkunin er,“ segir Matthildur.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir í viðtali á visir.is að félagið hafi ítrekað gagnrýnt tryggingarfélögin fyrir leynd yfir verði og gríðarlega há iðgjöld. Eins og staðan er í dag sé nánast ómögulegt að bera verð mismunandi tryggingarfélaga saman.

„Það er ljóst að það er greinilega lag til lækkunar fyrst að menn geta boðið á einhverju dagstilboði svona góðan afslátt,“ segir Runólfur.

„Svo auðvitað skýtur það skökku við að neytendur viti í rauninni ekkert hvað þeir eru að bjóða því þeir hafa ekki upplýsingar um verðið sem í boði er fyrir því það er allt saman persónubundið,“ segir Runólfur en hann segir einnig athyglisvert að þeir sem voru þegar viðskiptavinir hjá fyrirtækinu áttu þess ekki kost að nýta sér tilboðið.

Hann furðar sig enn fremur á því að tryggingarfélög bjóði upp á skyndiafslátt líkt og hver önnur verslun.

„Vátryggingar eru ekki skyndivara heldur eru þær eitthvað sem menn þurfa að gefa sér tíma til að liggja yfir og kynna sér skilmála og svo framvegis. Þannig við teljum bara eðlilegt að þetta sé skoðað af þar til bærum yfirvöldum hér á landi,“ segir Runólfur.