FÍB kvartar til Neytendastofu vegna ,,cyber monday” afsláttartilboðs TM

FÍB sendi í dag inn erindi til Neytendastofu þar sem vakin er athygli stofnunarinnar á því að afsláttartilboð TM mánudaginn 29. nóvember brjóti gegn lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Neytendastofa

Um var að ræða svokallað „cyber monday“ tilboð um 30% afslátt í eitt ár af tryggingaiðgjöldum nýrra viðskiptavina. Tilboðið stóð bara í einn dag og gilti aðeins fyrir viðskiptavini annarra tryggingafélaga en TM.

Í 11. grein laga nr. 57/2005 segir að við útsölu eða aðra sölu, þar sem selt er á lækkuðu verði, megi því aðeins auglýsa eða tilkynna að um raunverulega verðlækkun sé að ræða. Þess skuli gætt að greinilegt sé með verðmerkingum hvert hið upprunalega verð vörunnar var.

Engin leið er fyrir nýjan viðskiptavin að sjá fyrra verð á því iðgjaldi sem honum stendur til boða í tilboði TM. Tryggingafélagið birtir ekki verðskrá, heldur sníður tilboð að hverjum og einum einstaklingi. Tilboð TM hverju sinni er því alltaf upprunalegt verð og getur þar af leiðandi ekki talist tilboðsverð. Fullyrðing um 30% afslátt hefur því ekkert gildi. Ekki er um raunverulega verðlækkun að ræða enda liggja engar upplýsingar fyrir um fyrra verð.

FÍB ítrekar að afsláttartilboð TM varpar ljósi á þá staðreynd að tryggingafélög birta ekki verðskrár eða forsendur iðgjaldaútreikninga. Engin leið er fyrir neytendur að gera verðsamanburð öðru vísi en afla tilboða í persónulegar tryggingar sínar hjá hverju og einu tryggingafélagi. Engin leið er fyrir hagsmunasamtök neytenda á borð við FÍB að gera samanburð á iðgjöldum tryggingafélaga til að geta leiðbeint neytendum og stuðlað að samkeppni.

Þessi leynd yfir iðgjöldum og forsendum útreikninga tryggingafélaganna sem starfa á fákeppnismarkaði hindrar eðlilega verðsamkeppni á milli þeirra. FÍB hefur beint því til Samkeppniseftirlitsins að skylda tryggingafélögin til að gera verðsamanburð iðgjalda aðgengilegan. FÍB bendir á að í 16. grein samkeppnislaga eru víðtækar heimildir fyrir Samkeppniseftirlitið til að grípa til aðgerða til að stuðla að virkri samkeppni.