Framlög til samgöngumála er góð fjárfesting

Á þessu ári má gera ráð fyrir að ríkissjóður hafi yfir 70 milljarða króna í skatta af bifreiðum og umferð. Miðað við forsendur fjárlaga 2017 rennur um 33% af innheimtum bílasköttum til vegamála – með 1.200 m.kr. viðbótarframlaginu.


Er þinn flokkur/framboð sáttur við þessi fjárframlög til vegamála?

BJÖRT FRAMTÍÐ
Framlögin mættu vera meira í samræmi við þörf.

FLOKKUR FÓLKSINS
Nei við viljum að þessir 70 milljarðar fari óskiptir til vegamála.

FRAMSÓKN
Framlög til vegamála eru of lítil en skattheimtan er næg til að standa undir auknum framlögum til nýbygginga og viðhalds.

PÍRATAR
Nei, Píratar eru ekki sáttir. Pírötum finnst eðlilegt að allar skatttekjur sem tengjast þessum málaflokki renni beint í hann.

SAMFYLKINGIN
Sjá svar 2b

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN
Með tilkomu laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, lögðust markaðar tekjur af. Allir skattar eru nú almennir og ekki markaðir tilteknum útgjöldum s.s. til vegamála. Framkvæmdir ríkisins eru nú allar fjármagnaðar af almennum sköttum ólíkt því sem áður var en til síðustu áramóta voru sérstakt vörugjald af eldsneyti, svo kallað bensíngjald, olíugjald og kílómetragjald, einnig kallað þungaskattur, markaðar tekjur til vegamála. Í dag koma tekjur ríkisins af ökutækjum af vörugjaldi af ökutækjum, vörugjaldi af bensíni, bæði almennu og sérstöku, kolefnisgjaldi á bensín og dísilolíu, olíugjaldi, virðisaukaskatti af framangreindum gjaldstofnum, bifreiðagjaldi og kílómetragjaldi.

Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að einfalda og fækka gjaldflokkum og gera þessa skattheimtu gagnsærri.  Í fjármálatíð Sjálfstæðisflokksins hófst vinna við endurskoðun þessara gjalda. Í eftirfarandi töflu má sjá heildartekjur í milljónum króna af umferðinni á árunum 2010 til 2016 (7) og framlög ríkissjóðs til Vegagerðarinnar á sama tíma (án hafnarframkvæmda): Allar tölur eru á föstu verðlagi, reiknað með vísitölu neysluverðs til apríl 2017.

Hér ber að hafa í huga að til verkefna Vegagerðarinnar heyra, fyrir utan framkvæmdir, rekstur og viðhald á vegakerfinu, almenningssamgöngur, vaktstöð siglinga, vitabyggingar, sjóvarnir, Vestmannaeyjaferja,Landeyjahöfn, Húsavíkurhöfn, jarðgöng á Bakka og ferjubryggjur. Talan 70 ma.kr. sem vísað er til í fyrirspurn FÍB, inniheldur, auk VSK á vörugjald sem reiknað er með í töflunni, VSK af innflutningi bifreiða varahluta og jafnvel fleiru. VSK er flokkaður sem almennur neysluskattur og notaður til þess að fjármagna útgjöld ríkisins, s.s. heilbrigðis- og menntakerfið, enda nemur VSK um 29% af heildartekjum ríkissjóðs fyrir árið 2018. Virðisaukaskattur af innkaupsverði eldsneytis án gjalda er áætlaður 12 ma.kr. árið 2016 og af innflutningsverði bifreiða sama ár er virðistaukaskattur áætlaður 11 ma.kr. Samtals voru því samanlagðir allir skattar af bifreiðum og notkun þeirra um 70 ma.kr. árið 2016 sem skýrir þá tölu sem FÍB vísar til. Skattar af bifreiðum og umferð eru ætlaðir til uppbyggingar samfélagsins alls í gegnum ríkissjóð.

Kostnaður við slys í umferðinni er metinn afar hár bæði fyrir einstaklinga og hið opinbera. Samfélagslegur og einstaklingsbundinn kostnaður vegna slysa og óhappa var metinn 62 m.kr. pr. einstakling fyrir alvarleg slys og 13 m.kr. fyrir minni eða lítil meiðsl á verðlagi þess árs:

Umferðarslys hafa í för með sér gríðarlegan kostnað. Hluta þess kostnaðar má meta á markaði en aðra ekki, s.s. skerðingu lífsgæða, þjáningu og sorg. Algengt er að skipta kostnaði vegna samgönguslysa í beinan, óbeinan og óáþreifanlegan. Beinn kostnaður er sá sem tengist slysinu sjálfu, s.s. vegna eignatjóns auk kostnaðar í heilbrigðiskerfi og lögsýslu. Óbeinn kostnaður kemur til vegna framleiðslutaps alls samfélagsins sem hlýst af slysinu, ef um andlát eða varanlegar eða tímabundnar fjarvistir af framleiðslu einstaklinga er að ræða. Óáþreifanlegur kostnaður eru þau töpuðu lífsgæði, sorg og þjáning sem af slysunum leiða. Þennan kostnaðarlið er erfitt að meta á markaði, en engu að síður hafa verið þróaðar aðferðir til að leggja peningalega mælikvarða á hann. Þessi kostnaður leggst á ýmsa aðila í samfélaginu og ekki einungis á þá sem fyrir slysunum verða.

Séu þessar tölur heimfærðar upp á fjölda slysa árið 2015, þegar fjöldi alvarlegra slysa var 155 og minniháttar slysa 741, er ljóst að kostnaður þeirra var nálægt 20 milljörðum króna, bara þetta eina ár. Er þá algjörlega litið framhjá banaslysum og óhöppum án meiðsla. Ekki er í drögunum tiltekinn kostnaður vegna banaslysa, en þau urðu 16 árið 2015. Slysin urðu fleiri 2016, 183 alvarleg slys, 785 slys með minni háttar meiðslum og 18 banaslys og því kostnaður það ár hærri.

Í ljósi þess sem að framan greinir er heildarkostnaður samfélagsins af umferð umtalsvert meiri en þær tekjur sem ríkið hefur af bifreiðum í umferð. Með því er ekki verið að segja að nægilegum fjármunum sé varið til vegagerðar, enda stendur vilji Sjálfstæðisflokksins til þess að auka þau sbr. svar við spurningu 1. Hér er hins vegar bent á að nauðsynlegt er að horfa á heildarmyndina, en ekki bara hluta hennar.

VIÐREISN
Forsendur í spurningunni eru ekki réttar, og er bent á eftirfarandi svar við fyrirspurn þingmanns (https://www.althingi.is/altext/146/s/1075.html).

VINSTRI GRÆN
Nei. Vinstri græn leggja áherslu á að markaðir tekjustofnar renni óskiptir til samgöngumála. Það þarf að ráðast í markvissa uppbyggingu í vegamálum með sérstakri áherslu á viðhald.

 

Hefur þinn flokkur/framboð markað stefnu varðandi uppbyggingu vegakerfisins og fjárframlög úr ríkissjóði til vegamála á næstu árum?

BJÖRT FRAMTÍÐ
Já en án tiltekinna framlagsupplýsinga úr ríkissjóði.

FLOKKUR FÓLKSINS
Ekki í smátriðum en skilyrðislaust á að nýta þá tekjustofna sem markaðir eru til samgöngumála.

FRAMSÓKN
Stórauka þarf framlög til viðhalds, nýbygginga vega til að auka umferðaröryggi. Mikilvægt er að viðhald vegakerfisins sé í samræmi við álag og umferðarþunga hverju sinni.

PÍRATAR
Hvorki þingflokkur né grasrót Pírata hefur mótað sérstaka stefnu í þessum málaflokki. Það er þó alveg ljóst að Píratar vilja veita meiri fjármunum í málaflokkinn.

SAMFYLKINGIN
Ástand vegakerfisins er orðið bágborið bæði vegna þess að viðhaldi er ekki sinnt og nýframkvæmdir eru litlar í sögulegu samhengi. Á sama tíma stóreykst álag á vegi landsins vegna fjölgunar ferðamanna. Samfylkingin leggur áherslu á að staðið verði við samgönguáætlun sem var samþykkt á Alþingi. Bættar samgöngur skila sér í margvíslegu formi til íbúa landsins. Betri og greiðari samgöngur styrkja atvinnuvegina, búsetuskilyrðin og stuðla að uppbyggingu og bættri líðan fólks á landssvæðum þar sem slæmar samgöngur bitna á lífsgæðum íbúa

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN
Sjálfstæðisflokkurinn telur að skoða þurfi sérstaklega annars konar fjármögnun samgöngumannvirkja en bein framlög af fjárlögum, svo sem með samstarfsfjármögnun. Allar framkvæmdir í samgöngumálum hafi aukið öryggi að leiðarljósi. Sjálfstæðisflokkurinn vill veita stórauknu fjármagni til viðhalds á vegakerfi landsins sem hefur látið á sjá, á undanförnum árum. Þannig var fjárframlag til viðhalds vegakerf-isins aukið um 2,3 ma.kr. á þessu ári, eins og fyrr er getið. Aukin burðargeta vega, stytting vegalengda og fækkun einbreiðra brúa er jafnframt markmiðið

VIÐREISN
Viðreisn telur að framlög til samgöngumála séu góð fjárfesting og að mörg brýn verkefni bíði sem að sjálfsögðu þarf að forgangsraða.

VINSTRI GRÆN
Afar brýnt er að fjármagna að fullu samgönguáætlun til fjögurra ára (þál. nr. 65/145) sem Alþingi samþykkti mótatkvæðalaust haustið 2016 og fól það í sér að verja skyldi allt að 100 milljörðum kr. til samgöngubóta á gildistíma hennar.

Samgöngukerfið hefur verið vanrækt á undanförnum árum að því marki að öryggi vegfarenda er teflt í tvísýnu verði ekki ráðist í nauðsynlegar úrbætur. Það er mat Vinstri grænna að fjárþörf til þessa málaflokks sé að lágmarki 13 milljarðar kr., í nauðsynlegar nýbyggingar, öryggismál og viðhald á vegum á árinu 2017. Álagið á vegakerfið hefur stóraukist á undanförnum árum með þungaflutningnum og stórauknum ferðamannastraumi og vekur það furðu að fráfarandi ríkisstjórn hafi ekki hafið uppbyggingu í vegakerfinu þegar í upphafi síðasta kjörtímabils, þegar fjárhagslegt svigrúm hafði myndast til þess.