FME biður FÍB blessunar í hagsmunabaráttu félagsins en.....

Hver er raunverulegur eigandi bótasjóðanna?

 Gagnrýni FÍB á arðgreiðsluáform þriggja tryggingafélaga hefur vakið verðskuldaða athygli. Félögin ætla að greiða margfaldan hagnað sinn í arð til eigenda með því að tappa af bótasjóðunum (sem líka kallast tjónaskuld). En hver á þessa bótasjóði? Hafa tryggingafélögin rétt til að nota þá í arðgreiðslur? Um þetta og sitthvað fleira tengt málinu er spurt og svarað hér á eftir:

 Hvers vegna gagnrýnir FÍB Fjármálaeftirlitið (FME) fyrir græðgi tryggingafélaganna?

FME er skylt samkvæmt lögum og eigin markmiðum að gæta hagsmuna almennings gagnvart tryggingafélögunum. FME er eini aðilinn sem hefur völd til að taka í taumana. Það lyftir hins vegar ekki litla fingri til að stoppa gripdeildir tryggingafélaganna úr bótasjóðunum. Þess vegna er FÍB að brýna fjármálaráðherra til hundskamma stjórn FME, svo stofnunin standi einu sinni með fólkinu í landinu.

Forstjóri FME segir að gagnrýni FÍB sýni vanþekkingu – er það rétt?

Það þýðir ekkert fyrir forstjóra Fjármálaeftirlitsins að vera með svona almenna fullyrðingu án þess að rökstyðja hana frekar – sem hún hefur ekki gert. Forstjórinn segir að FME viti nákvæmlega hvernig reikningarnir standi hjá tryggingafélögunum og þau hafi ekki tæmt bótasjóðina í arðgreiðslur. FÍB hefur ekki haldið því fram að félögin hafi tæmt sjóðina, heldur að þau séu að byrja að tæma úr þeim.

Hvað telur FÍB athugavert við arðgreiðslur tryggingafélaganna?

Þau eru að notfæra sér breytingar Evrópusambandsins á fyrirkomulagi reikningsskila tryggingafélaganna (kallað Solvency 2). Með þessum breytingum á eigið fé tryggingafélaganna að mæta áhættu vegna tryggingastarfseminnar. Ekki þarf lengur bótasjóði til að mæta tjónsáhættu. Eiginfjárstaða tryggingafélaganna er firnasterk þannig að þau eru reiðubúin. En um leið þykjast þau hafa frjálst spil með bótasjóðina, ýmist til að ávaxta þá eða greiða út sem arð. En bótasjóðirnir eru ekki eign tryggingafélaganna, þeir eru eign tryggingataka. Tryggingatakar hafa byggt þessa bótasjóði upp með álagi á iðgjöldin. Úr því að ekki er lengur þörf fyrir bótasjóðina, þá ber tryggingafélögunum að skila þessum fjármunum til tryggingataka, t.d. með því að nota sjóðina í tjónagreiðslur, fremur en nota þá í arðgreiðslur.

Hver á bótasjóðina?

Best er að vísa í eigin orð forstjóra tryggingafélaganna um þetta efni. Í viðtali við Morgunblaðið 12. ágúst 1995 sögðu þrír þeirra einum rómi að að fjármunir í bótasjóðum væru í raun „eign“ tjónþola og skuld tryggingafélaganna (Morgunblaðið setti gæsalappir utan um orðið eign, væntanlega til að undirstrika sérstöðu eignarinnar). Tryggingafélög leggi fjármuni til hliðar og ávaxti þá til að mæta óuppgerðum skuldbindingum. „Bótasjóðurinn er „eign“ tjónþola en ekki tryggingafélaganna,“ sagði Einar Sveinsson, þáverandi forstjóri Sjóvár.

Með öðrum orðum, tryggingafélögin eiga ekki krónu í bótasjóðunum. Með Solvency 2 reikningsskilaaðferðinni er ekki lengur gerð krafa um bótasjóði til að mæta áhættu tryggingafélaganna, heldur nægir eigið fé þeirra. Af því leiðir að tryggingafélögin eiga að skila þessum fjármunum til baka. Þau geta t.d. notað bótasjóðina í það sem þeim var upphaflega ætlað, þ.e. að greiða tjón. En þau hafa engan rétt til að nota þá í arðgreiðslur.

Hvað er um háar fjárhæðir að ræða?

Sem dæmi má nefna að í bílatryggingum standa bótasjóðir tryggingafélaganna samtals í 27 milljörðum króna. Núna ætla þrjú tryggingafélög að greiða 8,5 milljarða króna í arð, þrátt fyrir að hagnaður þeirra árið 2015 hafi verið 5,6 milljarðar króna. Það er sjaldgæft að allur hagnaður sé greiddur í arð, hvað þá að allur hagnaður og 3 milljarðar króna til viðbótar fari í arðgreiðslur. Tryggingafélögin ganga á bótasjóðina til að borga þennan arð. Og það skal enginn halda að þetta eigi ekki eftir að endurtaka sig næstu árin þangað til búið verður að tæma sjóðina.

Er ekki of seint fyrir FME að taka í taumana?

Fjármálaeftirlitið hefur árum saman vitað hvað var í vændum, ekkert síður en tryggingafélögin. Breytingar á reikningsskilum tryggingafélaganna (Solvency 2) hafa verið yfirvofandi í 6-7 ár og FME hefur haldið utan um þá innleiðingu. Fyrst átti hún að eiga sér stað 2013 en var frestað fram á þetta ár. Allan tímann hefur verið vitað að geta tryggingafélaganna til að mæta bótakröfum yrði byggð á eiginfjárstöðu þeirra en ekki bótasjóðum. Úttekt á stöðu félaganna fyrir 5 árum sýndi að þau höfðu öll mjög hátt gjaldþolshlutfall (nógu góða eiginfjárstöðu til að standa undir breyttum reglum). Strax þá gat FME farið að skipuleggja með tryggingafélögunum hvernig bótasjóðunum yrði ráðstafað, annað hvort með endurgreiðslu þeirra til tryggingataka eða lækkun iðgjalda. En þess í stað hafa bótasjóðirnir fengið að halda sér. Tryggingafélögin hafa grætt vel á ávöxtun þeirra og ætla nú að fara að dæla þeim út til eigenda sinna. Allt er það með velþóknun Fjármálaeftirlitsins.

Er ekki einfaldast að hætta bara í viðskiptum hjá gráðugu tryggingafélögunum?

Og tryggja hvar? Þrjú af fjórum tryggingafélögum hafa upplýst að þau ætli að greiða sér arð langt umfram hagnað. Þetta eru VÍS, TM og Sjóvá. Þá er bara Vörður eftir, en það félag hefur ekki upplýst ennþá hvaða tillögur verði gerðar um arðgreiðslur á aðalfundi. Tryggingamarkaðurinn hér á landi einkennist af fáokun með tilheyrandi skorti á samkeppni. Helst er að vænta eitthvað betri kjara með því að óska árlega eftir tilboði í tryggingar frá öllum tryggingafélögunum. Þannig tekst stundum að lækka iðgjöldin lítillega. En þeir sem ekki gera það og halda bara áfram að borga fá enga lækkun. Þannig „verðlauna“ tryggingafélögin fasta viðskiptavini.

Er einhver skýring á linkind FME við tryggingafélögin?

Meginhlutverk Fjármálaeftirlitsins er að gæta þess að fjármálafyrirtæki starfi með eðlilegum hætti. Í því felst að FME á að gæta hagsmuna viðskiptavina fyrirtækjanna og almennings. FME virðist hins vegar einblína á það að fjármálafyrirtækjum (þar á meðal tryggingafélögum) gangi sem allra best, sama þó það komi niður á hagsmunum viðskiptavina. Þetta birtist t.d. í ofurgjöldum sem bankar komast upp með að leggja á viðskiptavini, vaxtaokri, samræmdri verðskrá og öðrum ráðstöfunum til að hafa tugmilljarða króna hagnað. Þetta birtist í aðgerðaleysi gagnvart gripdeildum tryggingafélaganna á bótasjóðunum. Svo virðist sem FME líti á sig sem hlekk í því að fjármálakerfið hagnist sem mest, fremur en útvörð almennings.