Lög félagsins

  http://www.fib.is/myndir/FIB-logo.jpg

 Félag íslenskra bifreiðaeigenda 

Stofnað 6. maí 1932 

 

I.  KAFLI – NAFN FÉLAGSINS, HEIMILI OG TILGANGUR

1. Grein.

Félagið heitir Félag íslenskra bifreiðaeigenda, skammstafað FÍB. (The Icelandic Automobile Association – Motor Touring Club de Islande). Félag íslenskra bifreiðaeigenda er frjáls félagasamtök bifreiðaeigenda á Íslandi.  Félagið er sjálfstætt  og óháð einstaklingum, fyrirtækjum, samtökum og stjórnvöldum.  Heimili félagsins og varnarþing er á höfuðborgarsvæðinu og skal aðalskrifstofa félagsins vera þar.

  

2. Grein.

Tilgangur félagsins er að sameina bifreiðaeigendur á Íslandi; efla umferðaröryggi, umferðarmenningu og gæta hagsmuna bifreiðaeigenda.Félagið skal vera neytendasamtök bifreiðaeigenda og reka hagnýta ráðgjöf fyrir félagsmenn sína.  FÍB leitast við að skilja væntingar og þarfir félagsmanna og uppfylla kröfur um þjónustu og vörur. FÍB býður upp á fjölbreytta þjónustu og  tryggir gæði og aukna kosti félagsaðildar á hverjum tíma. 

Félagið  skal veita stjórnvöldum ráðgjöf og umsögn í öllum erindum er varða ökutæki og umferðarmálefni. Félagið vill stuðla að auknum valkostum og frelsi í samgöngum.  Félagið vill tryggja hreyfanleika með hagsýni, umhverfisvitund og öryggi vegfarenda að leiðarljósi.   

FÍB gerir ríkar siðferðilegar kröfur til allra sem koma að starfsemi  félagsins og í öllum samskiptum innan samtakanna sem utan. Félagið viðhefur góða starfshætti í samskiptum við einstaklinga og stofnanir innan og utan samtakanna.

 

II. KAFLI – LANDSÞING

  

3. Grein

Landsþing hefur æðsta vald í málefnum Félags íslenskra bifreiðaeigenda.  Landsþing skal halda annað hvert ár.  Stjórn félagsins ákveður  fundarstað.  Til landsþings skal boðað með a.m.k. mánaðar fyrirvara með auglýsingu á heimasíðu FÍB og í a.m.k. einum fjölmiðli, eða með tölvupósti.  Rétt til setu á landsþingi sem fulltrúi með atkvæðisrétt eiga allir fullgildir félagar í FÍB sem eru skuldlausir við félagssjóð og hafa verið félagsmenn í a.m.k. 6 mánuði fyrir boðað landsþing.  Félagsmenn skulu tilkynna landsþingsþátttöku með a.m.k. 10 daga fyrirvara. 

  

4. Grein.

Þingið kýs  fundarstjóra, ritara og kjörnefnd.  Kjörnefnd rannsakar í upphafi þings kjörgengi fulltrúa, gefur út kjörbréf og úrskurðar um gildi þeirra.  Kjörnefnd gerir tillögu til landsþings um þóknun til handa stjórnarmönnum.

  

5. Grein. 

Þessi eru skyldustörf landsþings FÍB: 

Skýrsla stjórnar.

Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu og samþykktar. 
Fjárhagsáætlun fyrir næsta tímabil. 
Lagabreytingar.
Kosning formanns.
Kosning stjórnar og varastjórnar.
Kosning tveggja félagskjörinna skoðunarmanna.
Þóknun til stjórnar ákveðin.
Stefnumótun.
Önnur mál.

Stefnumarkarkandi tillögur sem leggja á fyrir þingið ber að senda til stjórnar FÍB a.m.k. þremur vikum fyrir landsþing.  Til samþykktar lagabreytinga þarf atkvæði 2/3 greiddra atkvæða landsþingsfulltrúa, hjáseta, auður seðill eða ógildur telst ekki til greiddra atkvæða. Landsþing telst lögmætt hafi verið löglega til þess boðað. Auk kjörinna fulltrúa hafa starfsmenn félagsins og aðrir sem stjórnin boðar sérstaklega rétt til setu á landsþingi sem áheyrnarfulltrúar með tillögurétt og málfrelsi.   

III. KAFLI – STJÓRN FÉLAGSINS

 

6. Grein 

Á landsþingi er kosið í stjórn FÍB.  Framboð til stjórnar félagsins skal tilkynnt til skrifstofu FÍB og liggja þar frammi, minnst 10 virkum dögum fyrir landsþing.  Stjórnin fer með yfirstjórn félagsins á milli landsþinga.  Milli landsþinga sker stjórnin úr öllum vafaatriðum í lögum, reglum og reglugerðum ef ágreiningur verður.  Stjórn FÍB skipa fimm aðalfulltrúar og þrír varafulltrúar.  Við skipan í stjórn skal gætt svo sem unnt er jafnræðis milli landshluta.  Formaður er kosinn sérstaklega.  Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár eða á milli landsþinga FÍB. Formaður boðar stjórnarfundi og stjórnar þeim.  Æski þrír stjórnarmenn fundar, er formanni skylt að halda fund innan tveggja vikna. Stjórnarfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað.

  

7. Grein. 

Stjórn skipa fimm aðalfulltrúar með formanni og þrír til vara. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar að afloknu landsþingi skiptir stjórnin með sér verkum og velur varaformann, ritara og gjaldkera. Stjórn skal koma saman jafnaðarlega eigi sjaldnar en annan hvern mánuð.  Stjórnarfundir eru lögmætir sé löglega til þeirra boðað.     

  

IV. KAFLI - FRAMKVÆMDASTJÓRI

  

8. Grein. 

Stjórn FÍB ræður framkvæmdastjóra félagsins, að fengnum tillögum stjórnar.

  

9. Grein. 

Framkvæmdastjóri sér um daglegan rekstur félagsins og framkvæmdir í umboði stjórnar  og framkvæmdastjórnar. Framkvæmdastjóri sér um að bókhald félagsins sé fært samkvæmt lögum og fyrirmælum löggiltra endurskoðenda félagsins.  Stjórn félagsins setur framkvæmdastjóra erindisbréf. 

  

V.  KAFLI – TRÚNAÐARMENN 

 

10. Grein 

Stjórn FÍB getur skipað trúnaðarmenn sem hafa með höndum ráðgjöf  til félagsmanna á sínu svæði.   

  

VI.  KAFLI – FÉLAGSMENN O. FL.

  

11. Grein 

Félagar geta allir einstaklingar orðið sem áhuga hafa á málefnum félagsins.  Einnig geta félög, félagasambönd eða fyrirtæki fengið aðild að FÍB samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar félagsins. Stjórninni er heimilt að gera verðuga aðila að heiðursfélögum.  Stjórninni er heimilt að veita gullmerki FÍB þeim sem starfað hafa af trúmennsku fyrir félagið.

 

12. Grein 

Félagsgjöld einstaklinga og gjalddagar þeirra skulu ákveðnir af stjórn félagsins árlega fyrir komandi ár.  Árgjaldið skal ákveðið með hliðsjón af verðlagi í landinu og starfsemi félagsins. Félög, félagasamtök, fyrirtæki og ævifélagar greiða gjöld samkvæmt ákvörðun stjórnar félagsins, sem jafnframt ákveður réttindi þeirra. Stjórn félagsins er heimilt að fella niður eða gefa afslátt af árgjaldi félaga, sem hefur verið félagsmaður samfleytt í 5 ár, vegna breytinga á persónulegum högum, sem rekja má til aldurs eða örorku. Heiðursfélagar greiða ekki árgjöld. Félagsmenn í FÍB bera ekki persónulega ábyrgð á skuldbindingum félagsins.  Skuldbindingar sínar ábyrgist félagið með eigum sínum eins og þær eru á hverjum tíma.

 

13. Grein 

Úrsögn úr félaginu skal fara fram með skriflegri, rafrænni eða annarri sannanlegri tilkynningu til skrifstofu FÍB.  Úrsögn öðlast gildi þegar félagsári skuldlauss félaga lýkur eða strax og tilkynning berst ef félagi óskar þess.  Við úrsögn á félagsmaður ekki rétt á neinni endurgreiðslu gjalds eða hluta af eignum félagsins. Félagsmanni, sem bersýnilega vinnur á móti FÍB og hagsmunamálum þess, getur stjórnin vikið úr félaginu og tekur sú ákvörðun gildi strax.  Til slíkrar ákvörðunar þarf samþykki meirihluta stjórnarinnar.  Þeim sem vísa á úr félaginu, er heimilt að koma á stjórnarfund og skýra mál sitt, áður en ákvörðun er tekin.  Heimilt er þeim sem vikið er úr félaginu að skjóta máli sínu til næsta landsþings.

  

14. Grein 

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Reikningar félagsins skulu endurskoðaðir af löggildum endurskoðanda ásamt löglega kjörnum skoðunarmönnum félagsins og skulu þeir liggja frammi á aðalskrifstofu þess í a.m.k. þrjá daga fyrir landsþing. Á milli landsþinga skal framkvæmdastjórn leggja endurskoðaða reikninga félagsins fyrir stjórnina til samþykktar, sem síðan leggur þá fram á næsta reglulega landsþingi. 

  

VII.  KAFLI - FÉLAGSSLIT

  

15. Grein 

Félagið má einungis leysa upp með skriflegri allsherjaratkvæðagreiðslu og þarf til þess samþykki ¾ atkvæða skuldlausra félagsmanna.  Verði slík tillaga samþykkt  skulu eignir FÍB renna til þeirrar starfsemi sem að mati stjórnar félagsins hefur líkust markmið og uppbyggingu og FÍB en að öðrum kosti til fullgildra félaga í hlutfalli við fjölda þeirra. 

  

Lögin þannig samþykkt á XXX. Landsþingi FÍB, 7. mars 2015.