Spurt og svarað um rafbíla

rafbill

Með vaxandi rafvæðingu farartækja koma í sífellu fram fjölmörg ný orð og orðtök og hugtök. Hér koma nokkur þeirra sem ættu að auðvelda flestum að fylgjast með og lesa og skilja texta um rafbíla og innviði rafvæddra samgangna.

Spenna á rafhlöðum

Spennan í háspennurafhlöðum flestra rafbíla er 400 volt.

En í rafbílum er einnig 12 volta rafkerfi til að knýja hina almennu bílaþætti eins og ljós, varma- og loftræstikerfi, útvarp/hljómtæki og upplýsingakerfi.

Nokkrar tegundir rafbíla eru búnir háspennurafhlöðum með 800 volta spennu. Það þýðir að hleðslutíminn styttist.

Tvöfalt hærri spenna þýðir einnig að afköstin aukast að sama skapi miðað við sama ,orkumagn.

 AC hleðsla

AC er skammstöfun á Alternating Current, eða riðstraumi, eins og er á venjulegum rafveitukerfum. Þegar rafbíl er stungið í samband til hleðslu er riðstraumnum venjulegast umbreytt í jafnstraum (DC), þar sem rafmótor eða -mótorar bílsins vinna á jafnstraumi.

 Amper

Magn rafstraums er mælt í einingum sem nefnast Amper (A). Rafstraumur er það nefnt þegar hlaðnar eindir hreyfast. Til dæmis þegar rafeindir hoppa frá einu atómi yfir á næsta atóm í koparleiðara.

 Rafhlöðubílar

BEV er skammstöfun fyrir Battery Electric Vehicle – rafhlöðubílar sem er almenn lýsing á bílum sem eru án brunahreyfils (bensín- eða dísilvélar), knúðir eingöngu áfram af rafstraumi frá rafhlöðum.

 Efnarafalsbílar

Í þeim er efnarafall (Fuel Cell) sem umbreytir vetnisgasi í rafstraum sem svo knýr bílinn áfram. Vetnisgasinu sem dælt á tanka í bílnum og geymt þar undir miklum þrýstingi. Það er unnið með rafgreiningu úr vatni. En einnig má fylla tanka sumra bíla með metanóli – tréspíra. Þá skilur efnarafall þeirra bíla vetnisgasið úr tréspíranum og framleiðir straum sem knýr rafmótor bílsins. Í báðum tilfellum er útblástur efnarafalsbíl mjög hreinn, eða einungis vatnsgufa.

 DC hleðsla

DC stendur fyrir Direct Current - jafnstraum. Mótorar rafbíla eru yfirleitt knúnir jafnstraumi. Það gæti verið kostur að geta hlaðið sinn eigin rafbíl heimavið með jafnstraumi en það myndi kalla á uppsetningu á sérstakri (og dýrari) hleðslustöð sem umbreytir riðstraumnum frá rafveitunni í jafnstraum.

 Áfangahleðsla (riðstraumur)

Sú hleðsla rafbíla sem á sér stað heimavið eða við vinnustað eigandans er ekki hraðhleðsla. Hún er það hæg að það getur tekið allt frá 3 upp í 24 klst. að fylla geymana. Það ræðst að mestu af afkastagetu hleðslustöðvanna, stærð geymasamstæðunnar í bílnum og afkastagetu hennar til að taka við hleðslunni.

 Rafbíll

Sá bíll sem ekki hefur brunahreyfil heldur einungis rafmótor sem knýr hann áfram er það sem kallast (hreinn) rafbíll.

 Raf-tvíorkubíll (hybrid)

Bíll með brunahreyfli sem sækir viðbótarafl frá einum rafmótor eða fleiri í því skyni að lækka eldsneytisbrunann nefnist tvíorkubíll eða hybrid. Hann kemst sjaldnast nema styttri vegalengdir á rafmagni einu saman. En drægi þessara bíla er mismikið og eru því eru þeir stundum aðgreindir sem ýmist mildir tvinnbílar eða fullir tvíorkubílar.

 Eins fetils akstur

Þetta er stilling í hugbúnaði velflestra rafbíla.

Þessi stilling þýðir að rafmótorinn hægir á bílnum og því meir sem slakað er meir á inngjöfinni. Þannig þarf ekillinn mun minna að stíga á hemlafetilinn, eða jafnvel aldrei. Óvönum finnst þetta fyrst talsvert óvanalegt, jafnvel ónotalegt, en vanir rafbílaökumenn eru stórhrifnir, sérstaklega í borgarumferðinni.

 Heimahleðsla

Það liggur auðvitað beint við að nýta þann tíma sem ekki er verið að nota bílinn að tengja hann við hleðslu heimavið. Gerðu það að fastri venju þegar heim er komið að stinga bílnum í samband. Þá er hann alltaf fullhlaðinn næsta morgun. Með lægri verðtöxtum á rafmagni að næturlagi og með snjallri heimahleðslustöð getur snjallstöðin séð hvenær verðið lækkar og gangsett hleðsluna þegar það gerist.

 kWh – KílóWött pr. klst.

Geymslurýmd. Tilgreinir hve stór rafhlöðusamstæðan í rafbílnum er, í kílóWattstundum talið. 

Ein kílóWattstund er það orkumagn sem rennur inn á geymana á klukkutíma hafi hleðslustöðin verið stillt á 1 kW. Ef þú stillir hana á 11 kW þá færðu 11 kW eftir klukkutíma hleðslu.

Algengt er að litlir rafbílar hafi ca. 35 kWh (35 kílóWattstunda) rafhlöður (Honda e, Mazda MX30), en stórir allt að 100 kWh og sumir enn stærri (Volvo EX90).

 kW – KílóWött

Hleðsluafköst. Þegar talað er um hleðsluafköst þá snýst það um hve hratt er hægt að hlaða rafmagni inn á geymasamstæðu bíls.

Hleðslustöðvar hér og þar geta afkastað milli 3 og 22 kW, en hraðhleðslustöðvar ráða við frá 50 til 350 kW.

Afl mótorsins er oftast gefið upp í kW þannig að auðvelt er að umreikna aflið úr kW í hestöfl. 1 kW = 1,36 hö.

 Tengilbíll

Tengilbíll er samheiti yfir bæði hreina rafmagns-/rafhlöðubíla án brunahreyfils og sömuleiðis þá tvinnbíla sem hafa rafmagnsinntak. Báðum þessum gerðum má stinga í samband við rafmagnsveitur til að hlaða batteríin.

 Hleðslustöð

Kassi með rafmagns- og rafeindabúnaði sem gerir þér mögulegt að nálgast raforku á rafbílinn á heimastæðinu þínu um viðeigandi hleðslustöð sem er aðlöguð og stillt til að hlaða þinn bíl á sem skjótastan og öruggastan máta. En heimahleðslustöðvar eru ekki allar eins. Sama er að segja um rafkerfi og -lagnir húsa og heimtaugar.

Sums staðar fyrirfinnast enn virkir raftenglar sem ætlaðir voru til að stinga í samband brunahreyfilsbílum með vélahitara. Vélahitararnir auðvelduðu gangsetningu í kuldum. Við þessa tengla mætti tengja rafbíla en afkastagetan er ekki mikil, eða einungis ca. 3,7 kW. En hús með innbyggðu nútíma rafkerfi og inntaki gæti sem hægast þolað uppsetningu á 11 kW hleðslustöð.

 Hleðslustöð, hleðslustaður, hleðslustaur

Í fyrirsögninni eru þrjú orð sem öll tákna nánast sama hlutinn. Hleðslustöð á hleðslustað getur svo sem haft þrjú hleðsluúttök. Hleðslustaur er venjulega það sama, eða bara stöð fest á staur eða stólpa og sú stöð getur líka haft þrjú mismunandi hleðsluúttök en getur engu að síður ekki hlaðið þrjá bíla samtímis, heldur aðeins einn.

 Hleðsluafköst

Mælikvarði á hleðsluna með tilliti til stærðar, orkumagns og hraða hleðslunnar, mælt í kílóWöttum.

 Álagsskynjun

Viðbótarhugbúnaður (app) sem stjórnar úttaksafli hleðslustöðva eftir því sem þörf krefur. Ef margir notendur eru að hlaða samtímis, eða yfirálag er á einum og sama fasanum getur það gerst að stofnöryggi brennur yfir og slær út straumnum. Þegar rafvirki setur upp hleðslustöð, mælir hann álagsþolið og forritar hleðslustöðina í samræmi við það til að draga úr þeirri hættu. Þannig getur álagsskynjunin tryggt áreiðanleika hleðslustöðvar eða hleðslustöðva.

 Liþíum-jónarafhlaða (Li-ion)

Sú rafhlöðutækni sem notuð er í rafbílum. Þessar rafhlöður hafa yfirburði yfir aðrar gerðir rafhlaða. Engu að síður eiga sér stöðugt stað rannsóknir og tilraunir með það að markmiði að bæta orkurýmd þeirra og afköst.

 Létt-tvinntækni (Mild Hybrid)

Þessi tvíorkutækni er í samræmi við orðanna hljóðan létt. Hún bætir yfirleitt ekki sérlega mörgum hestöflum við og umtalsvert færri en gerist í venjulegum tvinnbílum. Í stuttu máli er um að ræða að í létt-tvinnbílnum er oftast mun stærri rafall (alternator) en ella. Í venjulegum rólegum akstri framleiðir þessi rafall straum eins og í venjulegum brunahreyfilsbílum að því viðbættu að hlaða inn á rafhlöðusamstæðu. Þegar gefa þarf í til að snöggauka hraðann, snýst virkni rafalsins við þannig að hann verður að rafmótor sem sækir orkuna í rafhlöðusamstæðuna og hjálpar brunahreyflinum við að auka hraðann. Ekki er yfirleitt hægt að aka létt-tvinnbílum á rafmagni einu saman enda er rafhlöðusamstæðan of lítil til þess og sömuleiðis rafallinn/rafmótorinn. Kerfið er fyrst og fremst hugsað sem viðbót til þess að koma CO2 losun bílanna niður fyrir tiltekin viðmiðunarmörk.

 Venjuleg hleðsla

Algengasti hleðslumátinn. Venjuleg hleðsla og sú algengasta. Hún er sú sem fram fer heimavið eða við vinnustaðinn. Rafmagnið er oftast tekið úr venjulegum 230 volta, 10A eða 16A, heimilis-/húsatengli. Tímalengd hleðslunnar er mjög mismunandi og ræðst m.a. af stærð rafhlöðusamstæðunnar. Algeng hleðsluafköst eru 7,4 kW.

 Drægni

Með öllum rafbílum fylgja upplýsingar frá framleiðendum um drægi þeirra samkvæmt samkvæmt WLTP-staðlinum. Hann miðast blandaðan akstur, mjúkt ökulag og jafnan, hóflegan hraða.

Ef þú ekur mikið á þjóðvegum og hraðbrautum og eins ef veður eru köld og rysjótt, máttu reikna með umtalsvert styttra drægi en WLTP tala bílsins segir til um.

 Tengja/hlaða (Plug and Charge)

Aðgerð sem virkar þannig að rafbíllinn ,,þekkir” þegar í stað hleðslustöð þegar honum er stungið í samband og hleðslan hefst strax þegar búið er að tengja.

Greiðslan fyrir orkuna fer síðan venjulega fram í gegn um áskrift og reikningurinn kemur í tölvupósti, smáskilaboðum og/eða beint inn á heimabankann.

 Plug in hybrid electric vehicle PHEV (tengiltvinnbíll) 

Bíll með brunahreyfli og viðbótarafli frá einum eða fleiri rafmótorum. Í honum er lítil eða meðalstór háspennurafhlöðusamstæða sem hægt er að hlaða með straumi frá rafveitu. Rafmagnið á fullhlöðnum rafhlöðunum dugar til að aka bílunum nokkra tugi kílómetra en þegar það klárast vinnur bíllinn eins og venjulegur tvinnbíll.

 Sjálfhleðslubílar

Bílaauglýsingar og óábyrgir fjölmiðlar lýsa tvinnbílum oft sem „sjálfhleðslubílum“. Þetta er ruglingslegt hugtak og þýðir í raun bara að rafknúinn bíll endurvinni hreyfiorkuna og breyti henni í raforku til að hlaða rafhlöðuna þegar hraðinn er minnkaður.

Allir rafmagnaðir bílar gera einmitt þetta, að endurnýta hreyfiorkuna; rafbílar, efnarafalsbílar, tvinnbílar, tengiltvinnbílar og létt-tvinnbílar. Munurinn er sá að bara rafbílar og tengiltvinnbílar geta ekið lengri eða skemmri vegalengdir án útblásturs en ekki tvinnbílar og létt-tvinnbílar. Þeir eru alltaf háðir brunahreyflinum.

 Snjallhleðsla

Snjallhleðsla er það þegar hleðslunni er stjórnað sjálfvirkt (oftast með appi) þannig að hún á sér stað á þeim tímum sólarhringsins þegar álag á veitukerfið er lítið og/eða orkuverðið er lægra.

 Hraðhleðsla (DC/jafnstraumur)

Sérstakir hleðslustólpar sem oft eru staðsettir við fjölfarna vegi og hraðbrautir þar sem hlaða má rafbíla með miklum krafti.

Venjulega er hægt að hlaða rafbíl frá 0 upp í 80 prósent hleðslu á 30 til 45 mínútum, allt eftir afli hleðslustöðvar, hve hratt bíllinn getur tekið móti orkunni, og stærð rafhlöðunnar.
KWst er oft dýrari á slíkri stöð en á hægvirkari hleðslustöð.

 Hleðslutenglar

Type 2

Gerð 2 er algengasti hleðslutengillinn fyrir riðstraumshleðslu - venjulega áfangahleðslu. Í rafmagnsbílum almennt ætti alltaf að vera kapall með svona tengli til að geta stungið í samband á almennum hleðslustæðum.

CCS Type 2

CCS er algengasti tengillinn fyrir hraðhleðslu, er staðalbúnaður í Evrópu. Þar sem hraðhleðslustöðvar þar hafa viðfesta kapla með CCS tenglum þá er ekki þörf á að hafa þá í rafbíl sínum. CCS-tengingin på rafbílnum þínum passar líka fyrir kapal með Gerð 2 tengli

Chademo

Chademo er hraðhleðslutengill sem fyrirfinnst í vissum japönskum bílum, svo sem Nissan Leaf og Lexus UX 300e.

Type 2 Tesla

Tesla nýtir endurbætta gerð af Gerð 2 tenglinum. Flestir Teslabilar eru markaðssettir með ókeypis hleðslu á eigin hleðslustöðvum Tesla-fyrirtækisins.

Type 1

Gerð 1 –Algengur tengill í asískum rafbílategundum en sjaldgæfur í Evrópu. Fyrirfinnst vart á Norðurlöndum.

SCHUKO

Schuko er tengill sem passar í algenga jarðtengda innstungu fyrir stærri raftæki. Áður fyrr fylgdi oft snúra með þessu tengi fyrir nýja rafbíla, en það verður æ sjaldgæfara, því rafbílaframleiðendur mæla gegn því að rafbílar séu hlaðnir með slíku tengi.

V2G Vehicle to Grid

Vehicle to grid þýðir að rafbíllinn getur skilað rafmagni til baka inn á veitunetið sé hann á annað borð tengdur.

Það er líka til valkosturinn V2D sem stendur fyrir ökutæki til annars tækis eins og t.d. rafmagnsreiðhjóls, eldunarhellu eða hraðsuðuketils, (og ennfremur V2L, sem þýðir hleðslustraumur frá rafbíl í annan rafbíl).
Bíll með V2D eða V2L getur semsé hlaðið annan rafbíl þó það vissulega taki talsverðan tíma vegna þess að hleðsluaflið er einungis 3,6 kW (líkt og venjuleg innstunga). Þriðja tæknin í þessa veru er svo V2H, (bíll til heimilis). Það þýðir að rafbíllinn getur virkað sem vararaflstöð fyrir húsið þitt.
Sem dæmi má nefna mætti nýta rafmagn frá bílnum yfir hádaginn þegar rafmagn er dýrt og mikið álag er á veitukerfið, en endurhlaða hann síðan að næturlagi þegar rafmagnið er ódýrara.

Wall Box

Enskt heiti á (heima)hleðslustöð. Sjá ,,Hleðslustöð.”

WLTP

Skammstöfun fyrir prófunarstaðalinn Worldwide Harmonised Light Vehicle Test. WLTP er sú staðlaða aðferð sem notuð er til að prófa eyðslu og drægni nýrra bíla. Með þessar drægni- og eyðslutölur fyrir framan sig getur hver sem er borið mismunandi tegundir og gerðir nýrra bíla saman. Drægnitölurnar eru marktækar að því leyti að þær eru fengnar úr prófunum sem eru nákvæmlega eins fyrir alla bíla, Hafa skal þó í huga að ekki er víst að þær komi alveg heim og saman við reynslu bíleigendanna því að þeir eru eins misjafnir eins og þeir eru margir og hafa tamið sér misjafnt ökulag, búa við mismunandi veðurfar og aðrar ytri aðstæður sem hafa áhrif á raunverulega drægni þeirra eigin bíla.

Vetni

Vetni má framleiða úr jarðgasi, metanóli (tréspíra) eða með rafgreiningu vatns. Vetni nýtist í efnarafölum til að framleiða rafmagn eða sem eldsneyti á brunahreyfla. Útblástur frá vetni er einungis meinlaus vatnsgufa.

Gírkassi 

Rafbílar eru velflestir með niðurfærslugír til að samhæfa snúningshraða rafmótorsins snúningi drifhjólanna. Til eru einnig rafbílar sem hafa tvo gíra. Tvinn- og tengitvinnbílar eru alltaf sjálfskiptir og fást bæði með venjulegum handskiptum gírkassa eða með stiglausri sjálfskiptingu (CVT). Léttir tvinnbílar eru sömuleiðis fáanlegir bæði með handskiptingu eða sjálfskiptingu.

Gagnlegt efni