Sumarakstur

 

Yfirfarið bílinn áður en lagt er af stað í ferðalagið

Það er frumskilyrði að ástand ökutækis sé gott áður en lagt er af stað í ferðalag.Ef viðgerðar er þörf, þá verður að gera ráðstafanir tímalega.  Oft tekur daga eða vikur að fá tíma hjá bifreiðaverkstæði og einnig getur bið eftir varahlut tafið enn frekar.  Á ferðalögum er bíllinn oftast meira hlaðinn og vegir misgóðir þannig að álagið er meira en við daglegan akstur.  Bíleigendur geta farið yfir ástand bílsins að hluta sjálfir en hemla og annan öryggisbúnað á að láta fagmenn athuga.

Hjólbarðar

Hjólbarðar verða að vera í lagi.  Munsturdýpt má ekki vera minni en 1,6 mm.  Ef framundan er langt ferðalag er ekki óeðlilegt að miða við 2-3 mm munsturdýpt til að mæta hjólbarðasliti á ferðalaginu.
Álag og slit á hjólbörðum eykst í hlutfalli við þyngd farþega og farangurs.  Kannið loftþrýsting hjólbarða og athugið ástand varahjólbarða.  Loftþrýsting þarf að auka ef bifreiðin er mikið hlaðin, í samræmi við ábendingar í eigendahandbók.

Nagladekk - Nagladekk eru bönnuð: 15. apríl - 1. nóvember

Yfir sumartímann er skylt að aka ekki á negldum vetrardekkjum. Sektir við því að aka á nagladekkjum á tímabilinu 15. apríl til 1. nóvember er 20.000.- krónur fyrir hvert dekk.

Höggdeyfar
Höggdeyfar gegna mikilvægu hlutverki og hafa mikið að segja varðandi aksturseiginleika bifreiðarinnar.  Hægt er að framkvæma einfalda athugun á ástandi höggdeyfa.  Byrjið á einu horni bifreiðarinnar og þrýstið honum niður þannig að hann hreyfist upp og niður.  Ef bifreiðin dúar meira en einu sinni upp og einu sinni niður getur það verið vísbending um lélagan höggdeyfi.  Þegar skipt er um höggdeyfi er ráðlagt að skipta um báða á sama öxli (báða fram- eða afturhöggdeyfa).

Ljós
Ljósabúnað verður að athuga.  Ef ljósapera fer þá er ráðlagt að skipta einnig út samsvarandi peru á hinni hliðinni.  Hafðu það fyrir reglu að vera alltaf með 
ljósaperur í bílnum til skiptana.

Verkfæri og varahlutir
Yfirfarið verkfærasett bifreiðarinnar.  Gott er að smyrja tjakkinn og jafnvel fleiri verkfæri.  Eftirfarandi verkfæri er ráðlagt að hafa í bílnum:  Felgulykil, skiptilykil, átaksstöng, kertalykil, skrúfjárn, stjörnuskrúfjárn, bittöng, loftþrýstimæli og vasaljós.  Auk ljósapera er gott að hafa algengustu varahluti, svo sem viftureim, kerti, öryggi, þurrkublöð, einangrunarband, olíu og frostlög.  Í bílnum á alltaf að vera viðvörunarþríhyrningur, sjúkrakassi, dráttartóg og bensínbrúsi.

Kælikerfi
Kælikerfi hreyfilsins ( vélar ) gegnir mikilvægu hlutverki og áður en haldið er af stað í ferð verður að ganga úr skugga um að nægur kælivökvi sé á kerfinu.  Ef áfyllingar er þörf er ráðlagt að blanda vatni og frostlegi í jöfnum hlutföllum saman (1/1).  Frostlög á einnig að nota á sumrin því þá ver hann kælikerfið gegn ryði.

Rafgeymir
Látið athuga hleðsluhæfi rafgeymis, t.d. hjá rafgeymaþjónustu.  Er nægilegt vatn á rafgeyminum?  Vanti á rafgeyminn þá bætið á hann eimuðu vatni.
Hreinsið póla og leiðslur með fínum sandpappír eða vírbusta.

Viftureim
Kannið ástand viftureimarinnar.  Reimin á rafalnum þarf að vera hæfilega strekkt, ekki þó meir en svo að hægt sé að sveigja hana til u.þ.b. 1 sm þar sem hún leikur laus.

Smurkerfi, kerti ofl.
Ráðlegt er að skipta um olíu á hreyfli og olíusíu áður en lagt er af stað í langferð.  Loftsíu og kerti á að skipta um í samræmi við upplýsingar í eigendahandbók bifreiðarinnar.

 Þetta getur bifreiðaeigandinn framkvæmt sjálfur
Kannað ástand hjólbarða og hjólbarðaþrýsting
Yfirfarið ljósabúnað
Athugað kælivökva
Kannað ástand og stillingu viftureimar
Athugað vantnsstöðu í rafgeymi
Hreinsað geymasambönd
Smurt hurðalamir o.fl.
Margir geta skipt um olíu, olíusíu, loftsíu og kerti sjálfir
Kannað ástand höggdeyfa

Þetta á fagmaðurinn að framkvæma
Kanna ástand hemlabúnaðar
Athuga tengsli (kúpplingu)
Vélarstilla 
Athuga ástand bensínleiðsla
Kanna stýrisbúnað
Skipta um olíu og síur
Kanna ástand útblásturskerfis

Þvottur
Með reglubundnum þvotti og góðri umhirðu endist bíllinn mun lengur og verður síður ryði að bráð.
Byrjið á að spúla bílinn vel. Best er að nota háþrýstiþvottatæki en einnig er hægt að notast við vatnsslöngu með bunustilli. Varast ber að nota ekki of mikinn vatnsþrýsting á lista í kringum glugga. Æskilegt er að þvo undirvagninn sérstaklega á þeim landsvæðum þar sem vetrarsöltun er viðvarandi. Spúla þarf vel þar sem salt og aur geta setið í s.s. undir brettaköntum og kringum hjól.

Eftir veturinn er nauðsynlegt að þrífa salt- og tjöruagnir af lakkinu með affitandi hreinsiefnum. Rétt er að nota þessi efni eingöngu á þvottaplönum bensínstöðva en þar eiga að vera niðurföll með skiljum vegna óæskilegra leysiefna. Þegar búið er að skola vel eftir affitunina er gott að þrífa bílinn með sápulegi og volgu vatni. Byrjið á toppnum og vinnið ykkur niður og endið á felgum bílsins. Æskilegt er að skola bílinn vel og reglulega á meðan á sápuþvottinum stendur. Gleymið ekki að þrífa vel innan í dyrakörmum og undir hurðum enda er þar oft hætta á ryði. Þurrkið bílinn að loknum þvotti með vaskaskinni eða gúmmísköfu, byrjið að ofan og haldið niður.

Hreinsun að innan
Takið yfirmotturnar úr bílnum og ryksugið bílinn að innan. Á flestum bensínstöðvum eru góðar og kraftmiklar ryksugur sem viðskiptavinir hafa aðgang að. Heimilisryksugur eru í flestum tilvikum ekki ætlaðar til notkunar utanhúss eða þar sem hætta er á raka. Mikilvægt er að teppi séu ekki blaut eða rök undir gúmmímottum. Raka verður að þerra upp til að hindra óæskilega lykt og myglu. Best væri að þurrka undir teppum en í flestum nýrri bílum er það illframkvæmanlegt. Gott húsráð er að setja gömul dagblöð undir gúmmímottur og draga rakan þannig úr teppum.

Þvoið rúður að innan með rúðuhreinsiefni og þrífið mælaborð, hurðarspjöld og annað inni í bílnum með rakri tusku. Hægt er að fríska upp á plast- og vínilhluti með sérstökum glansefnum.

Minni lakkskemmdir
Lítið steinkast getur valdið verulegum skemmdum á lakki og orsakað ryð ef ekkert er að gert. Lakkið er hluti af ryðvörn bílsins og mikilvægt að gera við minni lakkskemmdir sem fyrst til að fyrirbyggja ryðskemmdir á seinni stigum. Auðveldast er að gera við skemmdir sem aðeins hafa skaðað yfirborðslakkið en ekki náð niður í grunninn. Víða m.a. hjá bílaumboðum og í bílabúðum er hægt að kaupa rétta lakklitinn og bletta með pensli í sárin. Ef lakkið er í úðabrúsa er gott að úða lakki í lok brúsans og draga síðan með pensli. Berið nokkur þunn lög af málningu yfir skemmdina með mjóum pensli en forðist að klessa miklu efni í einu. Ef lakkskemmdin er umfangsmeiri verður að hreinsa laust lakk og ryð burt úr sárinu td. með sandpappír eða beittum hníf. Losið ekki meira en þarf því að lakkið frá framleiðanda verndar bílinn best. Þegar búið er að hreinsa svæðið þarf að bera ryðvarnargrunn í sárið og gæta að því að þekja vel. Zinkgrunnur hefur góða ryðvarnareiginleika. Notið gráan grunn á bíla með ljósu lakki. Grunnurinn þarf oft um 2 klukkutíma til að þorna áður en hægt er að bera yfirlakkið á í samræmi við ráðleggingarnar hér að framan. Mikilvægt er að loka með yfirlakki sem fyrst þar sem raki getur fljótlega orsakað tæringu ef ryðgrunnurinn er einn til varnar.

Bónun
Það borgar sig að bóna bílinn reglulega. Lakkið fær fallegri glansáferð og bónið ver lakkið skemmdum. Lakkið þolir meira álag og hrindir frá sér vatni. Auðveldara er að halda bílnum hreinum þar sem bónið dregur úr viðloðun óhreininda.

Ef lakkið á bílnum er matt getur þurft að fara yfir með massabóni. Bíllinn á að vera hreinn og massabónið er borið á með hringstrokum og nuddað vel. Massabón getur verið erfitt í meðförum og æskilegt að bera aðeins á litla fleti í einu. Á eftir er flöturinn þurrkaður með hreinni tusku þar til gljáinn er kominn fram.

Að bóna bíl er frekar létt verk með tilkomu nýrra og meðfærilegra efna. Í flestum tilvikum er hægt að bera þunnt bónlag á allan bílinn í einu. Bónið þornar á lakkinu og myndar hvíta himnu sem auðvelt er að pússa af. Bónið aldrei í sterku sólarljósi til að forða því að bónið brenni inn í lakkið.

Þessi einföldu ráð og tveir til þrír tímar í vinnu geta sparað verulega í viðhaldi aukið öryggi og hækkað endursöluverð.  Þetta bætir einnig samviskuna.